Íslenska karlalandsliðinu líður vel í Þorlákshöfn ef marka má úrslit kvöldsins gegn Hollendingum. Lokatölur 80-55 þar sem íslenska liðið var með undirtökin frá upphafi til enda. Haukur Helgi Pálsson leiddi íslenska liðið í kvöld með 23 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar með frábærum leik. Brynjar Þór Björnsson ísaði svo Hollendinga endanlega með þremur langdrægum sem skutu botninn úr þrótti Hollendinga.

Sigur í aðeins öðrum A-landsleik karlalandsliðsins í Þorlákshöfn þar sem Jón Arnór Stefánsson skoraði 15 stig svo kappann vantar aðeins fjögur stig í viðbót til þess að verða annar íslenski leikmaðurinn í sögunni til að fara í 1000 stig fyrir landsliðið. Fyrsti landsleikur Íslands í Þorlákshöfn var í apríl 1991 þegar Ísland vann stóran 32 stiga sigur á Austurríkismönnum.

Nokkuð basl var á báðum liðum í upphafi leiks en það var grimmd í íslensku vörninni og fyrir vikið skildi á milli liðanna. Pavel Ermolinskij kom Íslandi í 9-2 með sterku gegnumbroti þar sem hann fékk villu og körfu að auki. Aðeins tveimur íslenskum þriggja stiga skotum var sleppt á loft í fyrsta leikhluta, höfum séð þau fleiri en okkar menn voru ófeimnir við að sækja að hávöxnum teig gestanna með Henk Norel fyrir miðju. Ísland leiddi 22-10 eftir fyrsta leikhluta. 

Hlynur Bæringsson klístraði niður fyrsta þrist leiksins en hann og Haukur Helgi Pálsson fóru fyrir íslensku sókninni í fyrri hálfleik og Jón Arnór Stefánsson bættist þar við undir lok hálfleiksins. Við töldum það ekki eftir okkur að þristur Hlyns hefði farið í spjaldið en þegar hann skömmu síðar bauð upp á annan slíkann var ekki hægt annað en að glotta út í annað, hann kallaði hvorugan.

Jón Arnór og Haukur áttu fléttu fyrri hálfleiks, hún hófst á því að Jón lét stela af sér boltanum, Haukur var snar til baka í vörnina og bauð upp á glæsilega varið skot sem varð að hraðaupphlaupi sem lyktaði með með þrist hjá Jóni og staðan 38-23 Íslandi í vil. Ísland leiddi 43-30 í hálfleik þar sem Hlynur var með 12 stig og 4 fráköst en þeir Jón Arnór og Haukur báðir með 11 stig. Vörnin aðalsmerki Íslands í fyrri hálfleik og baráttan fyrir hendi.

Losarabragur var á leik liðanna í upphafi þriðja leikhluta, nokkuð um illa ígrundaðar ákvarðanir en Hollendingar komu betur úr þeim stormi og fóru að saxa á forystuna og minnkuðu muninn í 47-41. Þar skömmu á undan hafði Pavel farið illa með fyrrum KR-inginn Jason Dourisseau þegar hann fyrst stal af honum boltanum og varð svo skot frá honum í næstu sókn, „velkominn aftur kallinn.“ 

Íslenska liðið tók þó aðeins við sér undir lok þriðja, Brynjar þór kom sem „super-sub“ af bekknum og skellti niður þrist þegar mínúta var eftir af þriðja og Ísland leiddi 56-45 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. „Brilli“ hélt uppteknum hætti í þriðja, var flottur varnarmegin líka en tveir þristar til viðbótar frá kappanum ísuðu gestina og Ísland vann fjórða leikhluta 24-10. Lokatölur 80-55 og mögnuð frammistaða, varnarleikurinn til algerrar fyrirmyndar en spurning hvort ekki hefði átt að hætta fyrr að spila á byrjunarliðsmönnum því Hollendingurinn fljúgandi var kyrrsettur nokkuð áður en flautan gall.

Maður leiksins: Haukur Helgi Pálsson

Tölrfæði leiksins

Byrjunarlið Íslands í dag:
Pavel Ermolinskij, Hörður Axel Vilhjálmsson, Jón Arnór Stefánsson, Haukur Helgi Pálsson og Hlynur Bæringsson. 

Myndasafn/ skuli@karfan.is