Íslendingar riðu ekki feitum hesti frá fyrsta leiknum í Toyota cup hér í Eistlandi gegn gestgjöfunum.  85:65 urðu lokatölur kvöldsins og liðið í raun langt frá sínu besta og eiga mikið inni.  Eistar hinsvegar léku vel og agað. Hittu gríðarlega vel úr þeim skotum sem þeir fengu  en boltinn gekk hratt manna á milli í sóknarleik þeirra sem einmitt skapaði þeim fín skotfæri.  

 

Eistar byrjuðu leikinn af krafti og skoruðu fyrstu 7 stig leiksins áður en Hörður Axel svaraði með 2 stigum ásamt víti.  Eistar voru hinsvegar sterkari og okkar menn frekar lengi í gang en náðu hinsvegar að klóra í bakkann á loka mínútum fyrsta leikhluta og endaði hann 18:9 heimamenn í vil. 

Eistar héldu áfram að hamra stálið heitt og voru komnir í 12 stiga forystu þegar best lét hjá þeim og voru byrjaðir að leyfa sér sendingar aftur fyrir bak.  Þrátt fyrir þetta þá voru íslensku piltarnir ekki langt undan og í hálfleik voru það 12 stig sem skildu liðin, 40:28.  Eins og tölurnar gefa til kynna þá var sóknarleikur liðsins alls ekki að bíta nægilega fast á vörn heimamanna.  

Íslensku piltarnir sýndu svo fínan leik í þriðja leikhluta þegar þeir  náðu muninum mest niður í 6 stig en Eistar voru augljóslega tilbúnari til leiks og þrátt fyrir ágæta kafla hjá íslenskum piltum þá voru of mörg mistök að plaga liðið og þá má fyrst nefna vítanýtingu liðsins sem var alls ekki á þeim kvarða sem liðið á að sýna.  Svo fór að lokum að Eistar sigruðu 85:65 og óneitanlega voru þeir betri en Íslendingar þetta kvöldið. 

Haukur Helgi Pálsson var bestur okkar manna að þessu sinni, hann setti niður 17 stig og var einnig grimmur varnarlega.  Kvöldið litaðist af því að sóknarleikurinn var frekar stirður framan af leik en lagaðist þegar á leið. Ofaní það voru einföld góð skot ekki að detta hjá liðinu og því fór sem fór. Þrátt fyrir stórt tap þá vill undirritaður alls ekki kvitta undir það að þetta sé munurinn á þessum tveimur liðum. Þvert á móti eru liðin nokkuð álík að styrkleika þó svo að Eistar hafi verið betri þetta kvöldið. 

Varnarleikur liðsins var á köflum ágætur en ákefðin sem einkenndi vörnina í leikjunum gegn Hollandi vantaði þetta kvöldið. 

 

Tölfræði leiksins.

Myndasafn