Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mun fylgjast með íslenska landsliðinu á EuroBasket í Berlín á næstunni. Vegna veru hans í Þýskalandi hefur stefnuræðu hans í kjölfar þingsetningar þann 8. september næstkomandi verið flýtt vegna leikjadagskrár Íslands.
Í frétt Morgunblaðsins í dag segir:
Hefðbundið er að forsætisráðherra flytji ræðuna daginn eftir, en í ár verður hún flutt að kvöldi þriðjudags. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir ástæðuna vera útsendingar Ríkisútvarpsins frá mótinu.
„Að þessu sinni verður þingið sett klukkan hálfellefu um morguninn sem er svolítið óvenjulegt. Stefnuræða forsætisráðherra verður að kvöldi þingsetningardagsins, sem er líka óvenjulegt. Það lá fyrir ósk frá Ríkisútvarpinu um það að við færðum þessar tímasetningar aðeins til. Til að koma til móts við það hliðraði þingið til,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Mynd/ nonni@karfan.is – Sigmundur Davíð og Hannes í DHL-Höllinni í Vesturbænum þegar 12 manna hópur Íslands fyrir EuroBasket var kynntur til leiks.