Martin Hermannsson var stigahæstur íslensku piltana í dag þegar liðið lék gegn Líbanon og sigruðu nokkuð örygglega þegar yfir lauk.  Martin skoraði 24 stig og sagðist hafa verið að finna sig vel. "Við vissum kannski ekkert almennilega hvað við værum að fara út í. Við sáum þá tapa með 30 stigum á móti Belgíu í gær, og mér fannst ég skynja smá vanmat í fyrri hálfleik sem að gerði okkur erfitt fyrir. Við þurfum að koma inn í alla leiki með þennan íslenska kraft og læti sem að við erum þekktir fyrir alveg sama á móti hverjum við erum að spila. Craig segir mér alltaf að vera ákveðinn og það gekk bara vel upp í dag" sagði Martin nú rétt í þessum í viðtali við Karfan.is

 

 Sem fyrr var Martin grimmur í sóknarleiknum í dag og setti niður 24 stig. "Ég reyni að nýta þær mínútur sem að ég fæ eins og ég get og skotin voru að detta. Ég vona að þessi leikur hafi verið gott spark í rassinn, og segir okkur að við getum aldrei dottið niður á hælana. Við vorum að búa til fullt af opnum skotum og boltinn gekk vel á milli manna sérstaklega í seinni hálfleik. Við spilum best þegar að við erum óeigingjarnir og erum á fullu. Auðvitað er alltaf eitthvað sem betur hefði mátt fara, ef að ég á að nefna eitthvað eitt þá voru það fráköstin, þá sérstaklega í fyrri hálfleik" bætti svo Martin við. 

 

Íslendingar klára svo í Póllandi á morgun gegn fyrnasterku liði Belgíu sem spila nú gegn Póllandi.