Mikið hefur verið og er að fara gerast hjá landsliði okkar íslendinga þetta árið. Fyrst voru það Smáþjóðaleikarnir, sem voru hér heima í byrjun júní. Þar sem að liðið náði öðru sæti. Næst er það hinsvegar lokamót Eurobasket í Berlín nú í september. Við það tilefni fannst okkur kjörið að hafa uppi á nokkrum fyrrum landsliðsmönnum Íslands og fá að spyrja þá að nokkrum spurningum.

 

Næstur er Keflavíkurgoðinn Jón KR. Gíslason, en ásamt því að hafa spilað eina 158 landleiki þá þjálfaði hann liðið einnig í 4 ár eftir að hann hætti spilamennsku.

 

Nafn: Jón Kr. Gíslason

 

Ferill: 1979-1997

 

Félagslið / tímabil:  Keflavík, að undanskildu einu ári í Grindavík og öðru með SISU í Danmörku. Þá tók ég líka eitt ár með Stjörnunni 2001 sem spilandi þjálfari.

 

Landsliðsferill: Ég spilaði með landsliðinu1982-1996 alls 158 landsleiki og þjálfaði svo landsliðið í 4 ár eftir það.

 

Hvernig var tilfinningin að vera valinn í landslið fyrst? 

Óraunveruleg, frábært þegar maður nær markmiðum sínum.  Þetta var auðvitað draumurinn daginn sem ég féll fyrir íþróttinni, 11 ára gamall.

 

Hvernig var fyrsti leikur þinn fyrir Ísland? 

Man lítið eftir honum, en það sem situr í minningunni er eftir leikinn þar sem ég sat við hliðina á Jóni Sigurðssyni inni í klefa sem þá var að spila leik nr. 101, þá var ég stoltur, hann var sá leikmaður sem ég leit mest upp til.

 

Var móðir þín viðstödd viðureignina? 

Nei, það var nú minna um það foreldrar væru að elta afkvæmin í íþróttum eins og nú er. Faðir minn var reyndar afskaplega duglegur að horfa þegar ég var unglingur.

 

Hver var eftirminnilegasti leikurinn sem þú lékst fyrir Ísland?

Leikur gegn Króötum þar sem nokkrir NBA leikmenn voru innanborðs, Toni Kukoc og Drazen Petrovic þar á meðal. Stærsta tap Íslands! Ég var stigahæstur, náði heilum 11 stigum.

 

Hver var sá besti leikmaður sem þú spilaðir með fyrir landsliðið og afhverju? 

Pétur Guðmundsson, hefði viljað spila fleiri leiki með honum. Leikur okkar breyttist svo gríðarlega þegar hann var með,  gott að koma boltanum á hann og hann var frábær sendingamaður.

 

Hversu ánægður varðst þú við það að fylgjast með landsliðinu tryggja sér sæti á sínu fyrstu lokum stórmóts?

Mér fannst það stórkostlegt og ég öfunda strákana að fá að kljást við alla þessa snillinga.

 

Afhverju heldur þú að það hafi loksins tekist fyrir liðið að tryggja sér seðilinn á lokamót?

Það þurfa margir hlutir að ganga upp til að ná árangri.  Við erum með stráka sem flestir hafa verið atvinnumenn á einhverjum tíma og þar af leiðandi hafa gæðin aukist.  Við vorum líka heppnir með riðil.

 

Hvernig heldur þú að Íslandi eigi eftir að vegna í þessum sterka riðli sem þeir í drógust?

Við vorum ekki eins heppnir með þennan riðil !  Jón Arnór orðaði það rétt um daginn, einn sigur væri flottur árangur.  Ég er að vona að liðin líti á okkar leiki sem “hvíldarleiki”, leikmenn verði hvíldir fyrir erfiðari leikina og þá getum við strítt þeim.  Ég veit að strákarnir verða einbeittir í hverjum leik og þeir munu verða landi okkar til sóma.

 

Ef þú fengir að senda einn fyrrum leikmann Íslands með liðinu á Evrópumótið, hver væri það þá og hvernig myndi hann hjálpa liðinu?

Pétur Guðmundsson.  Við erum að glíma við hávaxna öfluga menn, Pétur í sínu besta formi myndi hjálpa verulega til þar.

 

Hvert telur þú vera, fengir þú að velja lið allra tíma, byrjunarliðs uppstilling íslenska landsliðsins?

Liðið sem valið var byrjunarlið aldarinnar (tuttugustu) væri stórfínt, ég myndi henda sjálfum mér út og setja Jón Arnór í staðinn.  Jón Sig, Pétur Guðmunds, Teitur Örlygs og Valur Ingimundar. Hlynur Bærings myndi vera næstur inn. Falur Harðar, Jakob Sigurðar og Haukur Helgi myndu líka fá að sitja á bekknum.

 

Heldur þú, að þú sjálfur sem leikmaður, upp á þitt besta, værir á leið með íslenska liðinu til Berlín næsta vor?

Það er erfitt að bera saman leikmenn á milli kynslóða. Hvernig myndu Wilt Chamberlain eða Bill Russel líta út gegn núverandi NBA hetjum, en þeir voru hetjur síns tíma?  Það er auðvitað bullandi hroki í mínu lokasvari sem er já !

 

Hver væri þín helsta samkeppni og myndir þú taka hann/þá?

Allt þetta bakvarðager sem við eigum yrði mín samkeppni, það eru frábærir bakverðir í liðinu.  Það hentaði mér betur að spila 5:5, frekar en 1:1 þannig að þeir myndu væntanlega vinna mig !

 

Hvaða ungi leikmaður, sem ekki hefur spilað áður fyrir landsliðið, myndir þú veðja á að ætti eftir að spila yfir 50 landsleiki í framtíðinni?

Það er ómögulegt að segja, ég vona bara að sem flestir ungir leikmenn sem lesa þessa spurningu stefni að því að það séu þeir.

 

Hverja telur þú tvo mikilvægustu leikmenn íslenska liðsins í dag og afhverju? 

Jón Arnór er maðurinn, ég þarf ekki að útskýra það.  Síðan verða Hlynur og Haukur Helgi að vera í svaka gír í Berlín, þeir þurfa að kljást við marga risa.

 

Á að bregða landi undir fót og fylgja liðinu til Berlín í haust?

Mín ferðaplön miðast við að fara sem mest til New York og fylgjast með syni mínum, Degi Kár, með St. Francis í háskólakörfuboltanum.  Ég verð því heima í stofu með íslenska fánann þegar strákarnir berjast í Berlín.

Fyrri viðmælendur:Pétur GuðmundssonGuðjón SkúlasonGuðmundur Bragason

                      Hermann Hauksson

                      Tómas Holton

                      Valur Ingimundarson