Í gær skrifuðu Ragna Margrét Brynjarsdóttir og Telma Björk Fjalarsdóttir undir samning við Stjörnuna og er það mikill liðsstyrkur fyrir nýliðana fyrir komandi átök í Dominos deildinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Stjörnunnar.

Í tilkynningu Garðbæinga segir einnig:

Ragna Margrét hefur verið lykilleikmaður í Val og íslenska landsliðinu síðustu ár og á seinasta tímabili var hún með 9,4 stig og 8,7 fráköst að meðaltali í leik.

Telma Björk Fjalarsdóttir er að taka fram skóna að nýju en hún spilaði seinast með Haukum tímabilið 2010-2011 og nokkra leiki í upphafi tímabilsins 2011-2012. Árið 2010-2011 var hún með 6,9 stig að meðaltali í leik og 8,3 fráköst.

Ragna Margrét og Telma eru vanar því að spila saman inn í teig en þær spiluðu hjá Haukum fyrir einhverjum árum síðan ásamt þremur núverandi leikmönnum Stjörnunnar, Bryndísi Hönnu Hreinsdóttur, Kristínu Fjólu Reynisdóttur og Heiðrúnu Ösp Hauksdóttur.