Soho Grillvinafélagið samanstendur af nokkrum vinum úr Reykjanesbæ en þeir taka þátt í Grillsumarinu Mikla á vegum Innnes. Nokkrir landsliðsmenn nutu góðs af starfa Soho Grillvinafélagsins á dögunum.

„Keppnin snýst um það að keppendur fá afhenta matarkörfu fulla af gómsætum hráefnum. Úr því þarf að gera tvo rétti á 60 mínútum og aðeins má nota grill og ímyndunaraflið. Magnús nokkur Guðmundsson ákvað að skrá okkur félagana án þess að láta okkur vita, svo var bara valið úr umsóknum og við komumst í gegn. Við slógum bara til og ákváðum að gera gott úr þessu og bjóða nokkrum vel völdum landsliðsmönnum í mat fyrir komandi átök, því það vita allir að þessir drengir elska að borða og hvað þá góðan mat,“ sagði Teitur Ólafur Albertsson í spjalli við Karfan.is en Teitur er einn meðlima Soho Grillvinafélagsins. 

Nánar um Grillsumarið og Soho Grillvinafélagið

Mynd/ Mögulega dýrt en gómsætt spaug hér á ferðinni enda afreksíþróttamenn þekktir fyrir að hesthúsa mat eins og enginn sé morgundagurinn. Á meðal landsliðsmanna sem gæddu sér á kræsingum Soho Grillvinafélagsins voru þeir Hörður Axel Vilhjálmsson, Logi Gunnarsson, Haukur Helgi Pálsson og Elvar Már Friðriksson.