Einn allra efnilegasti leikmaður okkar Íslendingar, Kristinn Pálsson frá Njarðvík hefur ákveðið að hefja háskólanám í Bandaríkjunum með Marist háskólanum sem er í New York fylki.  Þetta ákvað Kristinn nú í kvöld en þó nokkrir háskólar höfðu sett sig í samband við kappann og í vikunni sem leið heimsótti Kristinn nokkra skóla. 

 

Kristinn sem er á 18. aldursári heldur til náms í næstu viku að öllu óbreyttu.  "Marist höfðu samband fyrst í vor og sýndu áhuga á mér en það gerðist ekkert fyrir alvöru fyrr en eftir Evrópumótið í Austurríki. En þá fór hinsvegar boltinn líka að rúlla fyrir alvöru og fleiri skólar fóru að láta heyra í sér." sagði Kristinn í samtali við Karfan.is nú í kvöld. 

 

Kristinn sem síðustu tvö ár hefur dvalið á Ítalíu og spilað þar með liði Stella Azzura er þar með að láta æskudrauma sína rætast. Marist spila í MAAC (Metro Atlantic Athletic Confrence) riðlinum og en það er t.a.m sami riðill og Brenton Birmingham fyrrum leikmaður Njarðvíkinga og Grindvíkinga spilaði með.  "Það komu nokkrir skólar til greina en ég ákvað að velja Marist. Við heimsóttum nokkra skóla en Marist stóð uppúr á endanum. Þetta er virkilega flottur skóli og í heimsókn okkar þangað þá leið mér mjög vel allan tímann. Þjálfarar náðu að selja mér þeirra hugmyndafræði en það er nýr þjálfari sem tók við í fyrra og er að reyna að byggja upp "prógrammið" eftir nokkur döpur ár. Þeir spila sama kerfi (Princeton) og Einar Árni þjálfari hefur verið að predika yngriflokka ár mín hjá Njarðvík og hjá landsliðinu." sagði Kristinn enn fremur. 

 

Skólinn er um klukkutíma frá New York borg og á bökkum Hudson árinnar og lýsti Kristinn því að allt sem sagt væri um skólann hafði staðist. "Ég var að vissu leyti farinn að undirbúa það að koma bara heim og spila með Njarðvík í vetur sem hefði ekki verið neinn heimsendir. En þarna er draumur minn að rætast og tækifæri sem ég sleppi ekki." 

 

Hjá Marist háskólanum hittir Kristinn fyrir Haukastúlkuna Lovísu Henningsdóttir og einnig fyrrum þjálfara Keflvíkinga Andy Johnston sem er aðstoðarþjálfari liðsins.