Eftir að hafa metið stöðu meistaraflokks kvenna hjá KR hefur stjórn deildarinnar ákveðið að það sé langtíma hagsmunum liðsins og félagsins fyrir bestu að KR segi sig úr keppni í Dominosdeild kvenna og taki þátt í 1. deild kvenna á komandi tímabili. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá KKD KR.

Í fréttatilkynningunni segir einnig:

Sannarlega ekki sú staða sem lagt var upp með eftir síðasta tímabil en eftir það sem á undan hefur gengið í leikmannamálum í sumar er það raunsætt mat að sá efnilegi en jafnframt ungi hópur sem telur meistaraflokk kvenna eigi frekar erindi í 1. deild. Metnaður KR er að skipa öflugt lið í báðum meistaraflokkum félagsins og hvergi verður slakað á í umgjörð kvennaliðsins. Markmiðið er nú að byggja upp þá ungu leikmenn sem munu koma úr yngri flokka starfinu, byggja upp öfluga leikmenn sem munu innan fárra ára koma KR aftur í fremstu röð í kvennaboltanum.

Leikmönnum og þjálfara var tilkynnt þessi niðurstaða og þessi framtíðarsýn á fundi með stjórn í kvöld. Björn Einarsson var ráðinn þjálfari liðsins síðastliðið vor og hefur hann skiljanlega fengið frest til að ákveða hvort hann fylgi liðinu í 1. deild. Þá er ljóst að landsliðskonan Bergþóra Holton mun ekki leika með KR í 1. deild og virðir stjórn kkd KR ákvörðun hennar og óskar henni alls hins besta í framtíðinni.  Það er von stjórnar að aðrir leikmenn taki slaginn, með þeim ungu leikmönnum sem fyrir eru.