Ísland og Líbanon voru að ljúka leik rétt í þessu á æfingamótinu í Póllandi þar sem lokatölur voru 96-75 Íslandi í vil. Líbanir leiddu 34-40 í hálfleik en 32-10 leikhluti í þriðja hjá okkar mönnum gerði út um verkefnið.

Ísland rétt eins og í gær fór fremur hægt af stað og lentu 12-20 undir í fyrsta leikhluta og staðan eins og áður segir 34-40 í hálfleik. Í þriðja leikhluta var blásið í herlúðra og leikhlutinn vannst 32-10. Lokatölur urðu svo 96-75. 

Martin Hermannsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 24 stig og 5 fráköst og Haukur Helgi Pálsson bætti við 23 stigum, 6 fráköst og 3 stoðsendingum. Þá var Logi Gunnarsson með 15 stig og 3 stoðsendingar og Jakob Örn Sigurðarson gerði 11 stig og gaf 2 stoðsendingar. 

Ísland lýkur keppni á æfingamótinu í Póllandi á morgun með leik gegn Belgum sem burstuðu líka Líbanon þegar liðin áttust við í gær. 

Pavel Ermolinskij lék ekki með í dag og kemur væntanlega í ljós á morgun nær Belgaleiknum hvort hann verði með þar. 

Mynd/ skuli@karfan.is – Martin Hermannsson var stigahæstur gegn Líbanon í dag.