FIBA Europe hefur síðastliðinn mánuð verið að styrkleikaraða þeim liðum sem taka þátt í EuroBasket 2015. Röðunin er byggð á frammistöðum liðanna undanfarið og úrslitum þeirra í æfingaleikjunum sem nú standa yfir.

Ísland hóf feril sinn á listanum í 24. sæti sem er jafnframt það neðsta enda samanstendur EuroBasket af fjórum sex liða riðlum. Á listanum sem kom út í dag er Ísland komið upp í 21. sæti og setur þar með Makedóníu, Bosníu og Holland niður fyrir sig á listanum. 

Serbar og Spánverjar hafa sætaskipti þar sem Serbar eru komnir í 1. sæti og Spánverjar í 2. sæti. Í umsögn sinni um Serba segir að þeir hafi gert vel með tveimur sigrum gegn Ísraelsmönnum í Ísrael og það án ungstirnisins Bogdan Bogdanovic. 

Í umsögninni um Ísland segir að liðið sé ekki lengur á botninum eftir sigur þeirra gegn Hollandi og Filippseyjum á æfingamótinu í Eistlandi á dögunum. Eistarnir sjálfir færast upp í 17. sæti með sigur á Toyota Four Nations Cup í Tallin. 

Power Rankings hjá FIBA Europe styðjast ekki við neitt Evrópu- eða heimslistakerfi heldur er um hugtlægt mat pistlahöfunda FIBA Europe að ræða. 

Sjá styrkleikalista FIBA Europe