Hörður Axel Vilhjálmsson hefur samið við gríska úrvalsdeildarliðið Trikala og hefur því sagt skilið við þýska úrvalsdeildarliðið Mitteldeutscher BC í bili. Hörður sem nú er í stífum undirbúningi með íslenska landsliðinu fyrir EuroBasket í Berlín sagðist ánægður með nýja liðið og að hann skilji sáttur við Þýskaland.

„Þýska deildin er ansi sterk en sú gríska er kannski aðeins þekktari enda vita allir að grískur körfubolti er góður,“ sagði Hörður áðan í samtali við Karfan.is en hann er með grískan umboðsmann. 

„Umboðsmaðurinn minn er mjög sáttur við þessa lendingu en þjálfari Trikala var að þjálfa í þýsku úrvalsdeildinni þegar ég var þar á mínu fyrsta ári svo hann vissi af mér og var búinn að vera í sambandi við umboðsmanninn minn.“

Trikala hafnaði í 12. sæti grísku deildarinnar á síðustu leiktíð með 8 sigra og 18 tapleiki en 14 lið skipa úrvalsdeildina þar í landi. Olympiacos varð meistari síðasta tímabil með 3-0 sigri á Panathiniakos í úrslitum deildarinnar. 

„Mig langaði til þess að takast á við nýja áskorun og ég tilkynnti MBC þetta fyrir um það bil tveimur vikum. Klúbbur eins og MBC byggir á ungum mönnum svo vissulega voru dýfur og uppsveiflur í gengi liðsins en klúbburinn er frábær og mér leið vel hjá þeim. Ég tel að við höfum alltaf gert betur en til okkar var ætlast og vart hægt að biðja um meira svo ég geng sáttur frá borði í Þýskalandi,“ sagði Hörður en hann veltir sér ekki mikið upp úr vistaskiptunum þessi dægrin enda á fullu í undirbúningi með íslenska landsliðinu fyrir EuroBasket. 

„Já einbeitingin er annarsstaðar og það er kannski ástæðan fyrir því að enginn vissi af þessu fyrr en nú. Ég setti þetta bara til hliðar eftir að þetta var komið á hreint og einbeitti mér að landsliðsverkefnunum,“ en hvernig er hugur hans til þeirra verkefna nú?

„Jákvæður, það er kominn alltaf meiri og meiri spenningur í mann,“ sagði Hörður og kvaðst orðinn meira og meira var við að almenningur fylgdi landsliðinu eftir. „Já, fólk gefur sig meira að manni og er forvitið um verkefnið, mun meira en áður.“

Frétt Trikalla um ráðningu Harðar