Ísland og Holland skiptu vináttulandsleikjunum bróðurlega á milli sín þar sem Hollendingar höfðu 65-73 sigur á íslenska liðinu í Laugardalshöll í dag. Liðin unnu því sinn hvorn sigurinn. Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur í íslenska liðinu í dag með 17 stig. Hollenska liðið gaf í eftir fyrri hálfleikinn og var umtalsvert sterkari aðilinn í síðari háflleik. Jón Arnór Stefánsson spilaði lítið sem ekkert í síðari hálfleik þar sem hann fann fyrir eymslum í öðrum fætinum.
Íslenska landsliðið hefur þar með leikið sinn síðasta landsleik hérlendis í undirbúningi sínum fyrir EuroBasket í Berlín. Næst á dagskrá eru æfingamót í Eistlandi og Póllandi áður en liðið heldur til Þýskalands í lokakeppni EuroBasket.
Jón Arnór Stefánsson opnaði stigareikning Íslands með þriggja stiga körfu, 3-2. Skömmu síðar rauf kappinn 1000 stiga múrinn fyrir íslenska landsliðið þegar hann braust í gegn, skoraði og fékk villu að auki og kom strákunum okkar í 7-4. Jón þar með kominn í fámennan en góðmennan hóp með Loga Gunnarssyni en þeir eru tveir einu íslensku leikmennirnir sem hafa skorað meira en 1000 stig fyrir Íslands hönd.
Hollendingar voru mun beittari í byrjun heldur en síðastliðinn föstudag og íselenska liðið felldi sig betur við langskot en að keyra á körfuna og nýtingin í upphafi leiks var næstum því þokkaleg. Ísland leiddi engu að síður 20-16 eftir fyrsta leikhluta.
Gestirnir opnuðu annan leikhluta með 5-0 áhlaupi og komust í 20-21 en íslenska liðið svaraði því með 8-0 skvettu og héldu forystunni út fyrri hálfleikinn eftir það. Hollendingar voru aldrei langt undan og settu flautuþrist sem dæmdur var af og Ísland leiddi því 41-33 í hálfleik.
Jón Arnór Stefánsson var með 11 stig í liði Íslands í hálfleik, Haukur Helgi Pálsson með 9 og Jakob Örn Sigurðarson 6.
Karp og streð einkenndi þriðja leikhlutann, þeir hollensku minnkuðu muninn í 49-45, það dró helst til tíðinda þegar Logi Gunnarsson kom aðvífandi og varði glæsilega skot frá Hollendingum. Íslenska liðið hélt forystunni með naumindum og leiddi 52-51 fyrir fjórða og síðasta leikhluta en Hollendingar unnu þriðja leikhluta 18-11 eftir flautuþrist frá Kees Akerboom.
Frá og með lokum þriðja leikhluta og vel inn í fjórða leikhluta náðu Hollendingar 15-0 spretti gegn íslenska liðinu og komust í 52-63. Ísland minnkaði muninn í 60-67 en lokatölur eins og áður segir 65-73. Fremur bragðdauf frammistaða hjá íslenska liðinu í seinni hálfleik og skipti líka sköpum að Hollendingar fóru að spreyta sig í langskotunum sem duttu nokkur hver.
Þann 19. ágúst næstkomandi heldur íslenska liðið út til Eistlands og leikur þar æfingaleiki gegn heimamönnum í Eistlandi, Filippseyjum og þar fær liðið einnig séns á því að kvitta fyrir leik dagsins því Hollendingar verða eitt fjögurra liða á mótinu.
Enn eru 15 leikmenn í íslenska hópnum og þrír þeirra eiga enn eftir að kveðja og skilja við lokahópinn sem fer til Berlínar.
Tölfræði leiksins
Myndasafn – Skúli Sigurðsson
Breytingin á íslenska hópnum fyrir leikinn í dag:
Í leiknum hvíldu Axel Kárason, Sigurður Þorvaldsson og Brynjar Þór Björnsson. Inn komu í þeirra stað Ægir Þór Steinarsson, Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Helgi Már Magnússon.
Byrjunarlið Íslands: Jakob Örn Sigurðarson, Hörður Axel Vilhjálmsson, Jón Arnór Stefánsson, Haukur Helgi Pálsson og Hlynur Bæringsson.
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson, Leifur S. Garðarsson og Anthonie Sinterniklaas.