Helga Einarsdóttir fyrrum fyrirliði KR mun koma til með að leika með Grindavík næsta vetur en þetta var kunngjört á heimasíðu Grindvíkinga nú í kvöld. Samningar þess efnis voru undirritaðir í kvöld.  Helga sleit barnskóm sínum á Sauðárkróki og er 27 ára gömul en hún hefur verið fyrirliði KR síðustu þrjú tímabil.  Helga er 186 cm að hæð og spilaði 8 síðustu tímabil með KR. 

 

Lið Grindavíkur hafa styrkt sig verulega fyrir átök næsta vetrar en fyrir hafa þær Íris Sverrisdóttir snúið í heimahaga og svo Keflavíkurmærin Ingunn Embla Kristínardóttir samið við liðið.  Hinsvegar hefur Pálína Gunnlaugsdóttir yfirgefið félagið og María Ben Erlingsdóttir er með barni og óvíst hvort eða hvenær hún snúi tilbaka. 

Karfan.is ræddi við Helgu um nýja áfangastaðinn. 

„Þetta leggst mjög vel í mig. Hópurinn samanstendur af ungum og efnilegum leikmönnum og síðan nokkrum reynsluboltum og hlakka ég til að bætast í þann hóp. Vissulega mun taka tíma að slípa liðið saman en ég hef fulla trú á að það takist með mikilli vinnu sem ég veit að leikmenn eru tilbúnir að leggja á sig. Grindavík er ekki feimið við að segja að þeir ætli að vera í baráttunni um alla titla og verður þetta því spennandi vetur.“

Mynd/ Grindavík.net