Í hádeginu var 12 manna hópur Íslands á EuroBasket kynntur til leiks í DHL-Höllinni í Vesturbænum. Hannes S. Jónsson formaður KKÍ tók einnig á móti 7,5 milljón króna styrk frá íslenska ríkinu til styrktar þátttöku Íslands í verkefninu.

Í ræðu sinni á fundinum kvaðst Hannes afar stoltur af öllu íslenska landsliðsfólkinu í sumar en nú er að ljúka stærsta landsliðssumri í íslenskri körfuknattleikssögu með metfjölda verkefna og leikja. Nú er komið að æfingamóti í Póllandi og að því loknu hefst EuroBasket þann 5. september næstkomandi. Hannes sagði á fundinum að um 800-1000 Íslendingar verði í Berlín á meðan keppni stendur og að uppselt væri á tvo fyrstu leikdagana í Mercedez Benz Arena. 

Einnig sagði Hannes það afar sérstakt að fara á stórmót í fyrsta sinn og að gríðarleg undirbúningsvinna hefði átt sér stað undanfarið. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, tók einnig til máls en hann afhenti styrkinn fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Sigmundur sagði einnig við fundinn að ríkið myndi fylgja þessum frábæra árangri eftir enda hafi víða verið vel tekið eftir honum, í Evrópu og víðar. 

Craig Pedersen landsliðsþjálfari kynnti hópinn og þá tók Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ einnig til máls og óskaði liðinu velfarnaðar. Að loknum fundi hélt liðið á æfingu og tekur svo aðra æfingu síðar í dag en á morgun hefst ferðin til Póllands. 

Íslenski hópurinn

Jón Arnór Stefánsson – án samnings 
Hörður Axel Vilhjálmsson – Trikalla, Grikkland
Jakob Örn Sigurðarson – Boras, Svíþjóð
Pavel Ermolinskij – KR
Ragnar Nathanaelsson – Þór Þorlákshöfn
Martin Hermannsson – LIU University, USA
Axel Kárason – Svendborg Rabbits, Danmörk
Helgi Magnússon – KR
Ægir Þór Steinarsson – án samnings
Logi Gunnarsson – Njarðvík 
Haukur Helgi Pálsson – án samnings
Hlynur Bæringsson – Sundsvall Dragons, Svíþjóð

Þjálfari: Craig Pedersen
Aðstoðarþjálfarar: Arnar Guðjónsson, Finnur Freyr Stefánsson

Læknir: Björn Zoega
Sjúkraþjálfari: Jóhannes Marteinsson
Sjúkraþjálfari: Einar Pétur Jónsson
Styrktarþjálfari: Gunnar Einarsson
Styrktarþjálfari: Baldur Þór Ragnarsson
Leikgreining/ myndbönd: Skúli Ingibergur Þórarinsson
FIBA Dómari (Riga – D-riðill): Sigmundur Már Herbertsson

Aðalfararstjóri: Páll Kolbeinsson
Fararstjóri: Eyjólfur Þór Guðlaugsson
Fjölmiðlafulltrúi: Kristinn Geir Pálsson 

Með hópnum verða svo Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Guðbjörg Norðfjörð varaformaður KKÍ. 

Mynd/ nonni@karfan.is – Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Hannes S. Jónsson formaður KKÍ á blaðamannafundinum í DHL-Höllinni í dag.