Einn leikreyndasti leikmaður Skallagríms í körfubolta, Hafþór Ingi Gunnarsson, hefur ákveðið að taka fram körfuboltaskóna á ný og leika með meistaraflokki karla á komandi leiktíð í 1. deild. Samhliða því mun hann halda áfram að gegna stöðu aðstoðarþjálfara liðsins við hlið Finns Jónssonar, en hann tók við því embætti á síðasta leiktímabili þegar Finnur var ráðinn þjálfari. Að auki mun Hafþór þjálfa drengja- og unglingaflokk Skallagríms á komandi tímabili. Samningar þessa efnis voru undirritaðir í dag. Frá þessu er greint á Skallagrimur.is 

Í frétt þeirra Borgnesinga segir einnig: 

Hafþór Ingi eða Haffi Gunn eins og hann er jafnan kallaður á að baki á fjórða hundrað leikja í meistaraflokki á ferlinum sem spannar síðustu 16 ár. Hann hefur lengstum leikið með Skallagrími, uppeldisfélagi sínu, en einnig hefur hann verið fjögur tímabil í herbúðum Snæfells í Stykkishólmi. Þar lék hann einmitt síðast, tímabilið 2013-2014, en varð þá að hætta körfuboltaiðkun vegna þrálátra meiðsla í hné.

Að sögn Haffa er hnéið í fínu ástandi eftir góða hvíld og ætlar hann því að taka slaginn með Skallagrími í vetur í 1. deildinni. Hann lítur með eftirvæntingu til tímabilsins enda komin fjögur ár síðan hann lék í Skallagrímsbúningnum síðast.

Haffi leikur stöðu bakvarðar en hann verður 34 ára gamall í september.

Ljóst er að endurkoma Haffa í liðið er gríðarlegur fengur fyrir Skallagrím. Haffi kemur með miklar reynslu í farteskinu sem mun nýtast vel ungu liði Borgnesinga í átökunum í vetur.

Mynd Skallagrimur.is/ Hafþór Ingi og Haraldur Már Stefánsson gjaldkeri kkd. Skallagríms eftir að gengið var frá samningi Hafþórs við deildina.