Í gær skrifuðu þær Hafrún Hálfdánardóttir og Kristbjörg Pálsdóttir undir samning við Stjörnuna og munu því spila með nýliðunum á komandi tímabili í efstu deild. Þær tvær munu því styrkja lið Stjörnunnar og ljóst að Stjörnustelpur eru að verða vel mannaðar fyrir næsta tímabil. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Garðbæingum.

Í tilkynningu Stjörnunnar segir einnig:

Hafrún Hálfdánardóttir er 25 ára gömul og kemur upphaflega frá Hamri en spilaði seinast með KR áður en hún lagði skóna á hilluna vegna meiðslna. Hún hefur ákveðið að draga fram skóna og mun sannarlega styrkja lið Stjörnunar en áður en hún meiddist var hún með 9,3 stig og 4,4 fráköst að meðaltali í leik.

Kristbjörg Pálsdóttir er ung og efnilegur leikmaður sem kemur til Stjörnunar frá Breiðablik en er upphaflega frá KR. Kristbjörg er 21 árs gömul og spilaði að meðaltali 19 mínútur í leik hjá Breiðablik, skoraði 5,5 stig og tók 2,4 fráköst í leik. Það verður gaman að fylgjast með þessum unga og vaxandi leikmanni í liði Stjörnunnar næsta vetur.

Við bjóðum stelpurnar velkomnar í Stjörnuna

Á myndinni eru Hafrún Hálfdánardóttir, Kristbjörg Pálsdóttir og Karen Sigurðardóttir frá meistaraflokksráði kvenna.