Bollaleggingar á kaffistofum hafa vísast snúist margar hverjar um 12 manna hópinn síðustu misseri. Í gær var tilkynnt hvaða 12 leikmenn fara til Berlínar en eftir leikinn í forkeppninni gegn Bosníu þegar ljóst varð að Ísland væri á leið í lokakeppni EuroBasket í fyrsta sinn hafa vafalítið margir verið að velta fyrir sér hvernig endanlegur hópur myndi líta út.  Nú er það komið á hreint og Karfan.is fékk tvo fyrrum landsliðsþjálfara Íslands og núverandi yfirþjálfara yngri landsliða Íslands til að velta málum fyrir sér.

Sitt sýnist hverjum með valið en þeir Einar Árni Jóhannsson, Jón Kr. Gíslason og Friðrik Ingi Rúnarsson vörpuðu smá mynd á valið en einn rauður þráður sameinaði innlegg þeirra þjálfara og það var að þeir gerðu sér grein fyrir þeim vandkvæðum og erfiðleikum sem íslenska þjálfarateymið stóð frammi fyrir. 

Einar Árni Jóhannsson – þjálfari Þórs í Þorlákshöfn og yfirþjálfari yngri landsliða Íslands

„Þjálfararnir voru aldrei öfundsverðir af valinu. Fyrr í sumar hefði ég allt eins getað sett pening á að hópurinn myndi líta svona út í lokin. Ég sá líka fyrir mér að Kristófer Acox hefði verið inni en í þeirri mynd sem byrjunarliðið hefur verið með Jakob, Loga, Martin, Ragnar og Helga komandi af bekknum þá var nokkuð ljóst í hvað stefndi. 

Stór hluti hópsins hefur verið í þessu síðan árið 2000 og harkað þetta ferli í 15 ár! Þeir eiga það svo sannarlega skilið að vera á leiðinni á fyrsta stórmótið. Það er í raun ekkert sem slær mig við þetta val, þarna eru margir frábærir hlutverkamenn og það er líka raunin með þá leikmenn sem lentu í skurðarhnífnum í dag. Það að þeir Brynjar Þór, Sigurður Gunnar og Sigurður Ágúst sem allir eiga atvinnuár á bakinu komist ekki í hópinn segir mikið um gæði liðsins. 

Brynjar hefur t.d örugglega mætt þeim væntingum sem til hans voru gerðar í æfingaleikjunum undanfarið og þar hafi ígildi hugsanlega ráðið för á endanum enda Brynjar mjög flottur í þessum leikjum.

Þegar allt kemur til alls er ekkert satt og rétt í þessum efnum. Það er auðvelt að velja svona hóp heima í stofu en allt annað að gera það í raun og veru. Eflaust hefur þjálfarateymið farið fram og til baka yfir þetta mál enda góðir leikmenn þarna sem hefðu átt að gefa þeim töluverðan hausverk. 

Blandan í liðinu er góð þar sem kynslóðaskipti í hópnum eru óhjákvæmileg á næstunni.“ 


Jón Kr. Gíslason – fyrrum landsliðsþjálfari Íslands (1995-1999)

„Þeir sem hafa staðið í þessu vita að þetta er með því erfiðara sem maður gerir. Undir venjulegum kringumstæðum eru allir þeir sem eru í æfingahópi viljugir til að ná inn í endanlegan hóp, hvað þá í þetta sinn! Það hefur örugglega aldrei verið eins mikil löngun hjá leikmönnum og því hefur ákvörðun þjálfaranna verið gríðarlega erfið. 

Þó maður hafi kannski séð megnið af valinu fyrir í æfingaleikjunum þá voru þessir þrír síðustu mjög tæpir. Persónulega hefði ég viljað sjá Sigurð Gunnar Þorsteinsson inni í hópnum en ég ítreka að forsendurnar sem þjálfararnir vinna með eru okkur sem eru utan þessa alls ekki skýrar. 

Þú vinnur með kjarna og til að loka hópnum er verið að velta fyrir sér hlutum sem við úti í bæ erum bara ekki með á hreinu. Þó ég hefði viljað sjá Sigurð Þorsteinsson í liðinu þá finnst mér valið mjög lógískt, þó t.d. Ragnar Nathanaelsson hafi ekki spilað mikið er eðlilegt að hafa mann í hópnum upp á 218 sentimetra. 

Verulegar breytingar eru á næstu misserum og líklegt að nokkrir leikmenn í hópnum séu á sínum síðustu metrum í sportinu. Eftir langt og strangt sumar þar sem EuroBasket er toppurinn finnst mér ekki óeðlilegt ef einhverjar yfilýsingar færu að berast. Það er samt enginn að hugsa um það í dag, allir með einbeitinguna á Berlín.“ 


Friðrik Ingi Rúnarsson – fyrrum landsliðsþjálfari Íslands (1992, 1998-1999, 1999-2001, 2001-2003, 2006-2007)

„Það er nokkuð ljóst og vitað töluvert lengi að valið yrði talsverður höfuðverkur fyrir landsliðsþjálfarana. Breiddin hefur kannski sjaldan eða aldrei verið eins mikil og fjöldinn af leikmönnum sem er að spila í atvinnumennsku eða háskóla ekki heldur. Allir að gefa kost á sér og kannski var það í raun einum höfuðverk færra fyrir þjálfarana að Kristófer Acox og Elvar Már Friðriksson hafi þurft að gefa verkefnið frá sér. 

Maður hefur auðvitað ekki verið inni á öllum æfingum og ekki séð alla leiki því miður en það er alveg hægt að rökstyðja þetta val og það hefði verið hægt að fara aðrar leiðir líka, t.d. að fara með hávaxnara lið. Einhverra hluta vegna hafa sumir af okkar hávöxnustu leikmönnum ekki spilað mikið undir stjórn síðustu þjálfara. Þeir hafa auðvitað sínar ástæður fyrir því en kosturinn hefur í mörgum tilfellum verið að spila „small-ball.“ Körfuboltinn hefur verið að breytast á síðustu árum og því má færa rök fyrir því að velja þetta svona. 

Það hefði líka mátt færa rök fyrir því að velja þennan eða hinn, Brynjar Þór Björnsson stóð sig vel þá sénsa sem hann fékk og er gríðarlega reyndur úr deildinni hér heima og með atvinnuár á bakinu, mikil byssa og ákveðinn karakter. Án þess að maður sé að ofgreina stöðuna þá veltir maður því fyrir sér að hugsanleg meiðsl hjá Pavel gerði það að verkum að hafa Ægi Þór Steinarsson til taks en þetta er hægt að þæfa og rökstyðja fram og til baka. 

Þeir sem eru í liðinu í dag hafa verið í nokkuð þéttum hópi síðustu ár og staðið sig fínt, ég er alls ekki að missa mig yfir þessu vali enda er ég ánægður fyrir hönd þeirra sem komust og líka sorgmæddur fyrir þeirra hönd sem komust ekki og lögðu svo mikið á sig. Ég er búinn að vera lengi í þessu og hliðarnar eru margar, maður veit ekki alltaf allt þegar maður er fyrir utan hópinn og maður getur hrópað á torgum en ég set mitt traust á þá sem stýra hverju sinni. 

Hópurinn er svo sennilega eitthvað í líkingu við það sem flestir bjuggust við. Sumir spyrja sig hvort við hefðum ekki átt að fara með fleiri sentimetra en þá bendi ég að hve lítið okkar hávöxnustu leikmenn hafa í raun spilað. Þetta mun engu að síður verða gríðarlegt álag á strákum eins og Hlyn og Hauk. 

Leikmannahópur Íslands á EuroBasket 2015
 

Jón Arnór Stefánsson – án samnings 

Hörður Axel Vilhjálmsson – Trikalla, Grikkland

Jakob Örn Sigurðarson – Boras, Svíþjóð

Pavel Ermolinskij – KR

Ragnar Nathanaelsson – Þór Þorlákshöfn

Martin Hermannsson – LIU University, USA

Axel Kárason – Svendborg Rabbits, Danmörk

Helgi Magnússon – KR

Ægir Þór Steinarsson – án samnings

Logi Gunnarsson – Njarðvík 

Haukur Helgi Pálsson – án samnings

Hlynur Bæringsson – Sundsvall Dragons, Svíþjóð

Mynd úr myndasafni KKÍ/ Ólafur Rafnsson – Frá árinu 1998 þegar Jón Kr. Gíslason stýrði íslenska liðinu í undanúrslitakeppni Evrópumeistaramótsins í Vilnius í Litháen.