Ísland lá í kvöld gegn Póllandi í vináttulandsleik þjóðanna á æfingamóti sem fram fer í Póllandi. Lokatölur voru 80-65 Pólverja í vil og sagði Finnur Freyr Stefánsson annar tveggja aðstoðarþjálfara íslenska landsliðsins að tapið hafi verið óþarflega stórt. 

„Eftir smá stirðleika í byrjun fór þetta að renna betur hjá okkur sóknarlega, Logi og Ægir komu flottir inn af bekknum og Logi hélt okkur við efnið. Varnarlega vorum við í vandræðum í fyrri hálfleik með boltaskrínin í kringum Gortat en gerðu mun betur í þeim málum í seinni hálfleik,“ sagði Finnur en í þeim síðari tókst Pólverjum engu að síður að auka á forskotið eftir að munurinn á liðunum hafi verið aðeins eitt stig í leikhléi. 

„Rauði þráðurinn í síðari hálfleik var að við fengum of mikið af hröðum sóknum í bakið. Í síðari þegar við vorum um fimm stigum undir þá töpum við boltanum í hraðaupphlaupi og fáum á okkur þriggja stiga körfu í bakið, tapið var síðan óþarflega stórt í restina. Að sama skapi vorum við vel inni í leiknum nánast allan tímann þrátt fyrir slakan leik,“ sagði Finnur en íslenska liðið lék án Pavels Ermolinskij og þá skilaði Jón Arnór Stefánsson ekki mörgum mínútum þetta kvöldið. 

Á morgun mætast Ísland og Líbanon kl. 15:30 að íslenskum tíma. 

Mynd/ Finnur Freyr Stefánsson annar tveggja aðstoðarþjálfara íslenska landsliðsins.