Eftir langa lægð er hollenska liðið aftur mætt á Eurobasket en 25 ár eru liðin síðan liðið tók síðast þátt. Liðið er þjálfað af hinum gamlareynda Toon van Helfteren sem tók við liðinu árið 2013. Van Helfteren þessi er leikjahæsti leikmaður hollenska landsliðið með 207 leiki og hefur gert gott mót sem bæði leikmaður og þjálfari í hollensku deildinni í tæplega fimm áratugi.

Finnur Freyr Stefánsson annar tveggja aðstoðarþjálfara íslenska landsliðsins hélt á dögunum til Ítalíu og sá m.a. Hollendinga leika gegn Þjóðverjum á æfingamóti þar í landi.

„Sóknarleikurinn sem hollenska liðið hefur sýnt í leikjunum hingað til er ekki þessi týpíski evrópski leikur þar sem mikið er um boltaskrín heldur snýst leikur liðsins mikið um skrín frá bolta og low post leik. Liðið hefur á að skipa hávöxnum framherjum og miðherjum sem eru öflugir með bakið í körfuna og snýst leikstíll liðsins mikið um að koma boltanum inní teiginn. Helstu stóru menn þeirra eru þeir Henk Norel #23 (211 cm), fyrrum samherji Jón Arnórs hjá Zaragoza, Roland Schaftenaar #13 (211 cm) sem var lykilleikmaður á síðasta ári þegar liðið vann sér sæti á Eurobasket og Robin Smeulders #21 (208 cm).

Á vængjunum hafa þeir stóra hreyfanlega menn í þeim Mohamed Kherrazi #9 sem lék einnig vel á síðasta ári og Jason nokkurn Dourisseau #8 sem er okkur Íslendingum að góðu kunnugur eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með KR liðinu 2008-2009.

Kees Akerboom #12 og Arvin Slagter #44 eru báðir hörkuskyttur sem spila í stöðum 2 og 3 en Slagter þessi var stigahæsti maður liðsins í óvæntum sigri þeirra á Svartfjallalandi sem tryggði þeim inná Eurobasket. Worthy de Jong #6 er svo mikill íþróttamaður, frábær varnarmaður með góðar hendur og mjög sterkur á körfuna. Hann átti prýðisgott mót á Trentino Cup á Ítalíu á dögunum.

Í leikstjórnanda stöðunni hafa þeir Hollendingar snögga og kraftmikla bakverði í þeim Charlon Kloof #7, Leon Williams #5 og Sean Cunningham #25 sem lék með Tindastól fyrir nokkrum árum,“ sagði Finnur sem kortlagði bæði Hollendinga og Þjóðverja á æfingamótinu á dögunum. 

Leikirnir hér á Íslandi verða þeir fimmtu og sjöttu hjá liðinu í undirbúning sínum fyrir Eurobasket. Liðið lék á Trentino Cup á Ítaliu þar sem liðið tapaði sannfærandi í fyrsta leik gegn Ítalíu 64-52 en töpuðu svo í hörkuleikjum gegn Þjóðverjum (59-55) og Austurríki (58-49). Á þriðjudag lék liðið síðan gegn Belgíu í Antwerpen og tapaði illa 65-49. Það má því búast við að hollenska liðið mætir til leiks í Þorlákshöfn í kvöld í leit að sínum fyrsta sigri.