Undirbúningur liðanna sem taka þátt í EuroBasket 2015 í september er nú í fullum gangi. Fjögur lið leika nú m.a. í Trentino Cup á Ítalíu en þar eru heimamenn ásamt Þjóðverjum, Austurríkismönnum og Hollendingum. Þjóðverjar eru á mótinu án þeirra Dirk Nowitzki, Dennis Schröder og Tibor Pleiss sem allir koma til liðs við þýska landsliðið á næstu dögum.

Þjóðverjar mörðu Austurríkismenn í fyrsta leik en í næsta leik mættust Ítalía og Holland en Hollendingar eru svo væntanlegir í tvo æfingaleiki hingað til lands dagana 7. og 9. ágúst næstkomandi. Ítalir mörðu Hollendinga 64-52. Holland leikur í C-riðli á EuroBasket ásam Grikkjum, Króötum, Slóvenum, Makedónum og Georgíumönnum. 

„Ítalir og Þjóðverjar eru gríðarleg vel mannaðir þrátt fyrir að vera án NBA leikmanna sinna. Mikil og góð breidd hjá þessum þjóðum og verður athyglisvert að sjá þau mætast i kvöld. Hollendingar eru i hörku undirbúningsprógrammi fyrir EuroBasket einsog við, áttu góðan leik við Þjóðverja i gær. Meðal leikmanna þar er Jason Dourisseau sem lek með KR 2008-9 tímabilið,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson annar tveggja aðstoðarþjálfara íslenska landsliðsins en hann er úti á Ítalíu að fylgjast með mótinu.

Mynd/ Úr viðureign Þýskalands og Austurríkis á Trentino Cup.