Mikið hefur verið og er að fara gerast hjá landsliði okkar íslendinga þetta árið. Fyrst voru það Smáþjóðaleikarnir, sem voru hér heima í byrjun júní. Þar sem að liðið náði öðru sæti. Næst er það hinsvegar lokamót Eurobasket í Berlín nú í september. Við það tilefni fannst okkur kjörið að hafa uppi á nokkrum fyrrum landsliðsmönnum Íslands og fá að spyrja þá að nokkrum spurningum.

 

Að þessu sinni er það Hermann Hauksson, en á meðan hann plægði akurinn, bæði, vestur í bæ og í Njarðvíkinni, spilaði hann einnig eina 64 landsleiki fyrir Íslands hönd frá árinu 1994 til aldamóta.

 

Nafn:

Hermann Hauksson

 

Ferill: 

Hóf æfingar hjá ÍR sem gutti undir leiðsögn Sigvalda heitins. Flutti í Vestubæinn 13 ára og fór þá í KR enda alltaf verið mikill KR-ingur. Spilaði með meistarflokkki KR nánast allan minn feril fyrir utan tvö ár með Njarðvík og eitt tímabil í Belgíu. Margir reykjavíkurmeistaratitlar, tveir bikarmeistaratitilar og tveir deildarmeistaratitilar ásamt "MVP" deildarinar 1997 og úrvalslið nokkrum sinnum.

 

Félagslið / tímabil:

1991-1997  KR
1997-1998  Saint Niklaas Bels
1998-2002  Njarðvík
2000-2002  KR

 

Landsliðsferill: 

Landsliðsferillinn hófst 1992 og var til 1999 minnir mig. Á um 60 leiki held ég.

 

Hvernig var tilfinningin að vera valinn í landslið fyrst?

Tilfinningin var frábær enda draumur að fá að spila fyrir land sitt. Torfi Magnúson valdi mig í æfingaferð til Bandaríkjana þar sem við flökkuðum á milli háskóla og spiluðum þar við skólaliðin, frábær reynsla.

 

Hvernig var fyrsti leikur þinn fyrir Ísland?

Fyrir utan Bandaríkjaferðina þá var minn fyrsti formlegi landsleikur á móti Svíum held ég. Þar sem ég gerði 11 stig.

 

Var móðir þín viðstödd viðureignina?

Nei enda spilaður erlendis, en hún og öll mín fjölskylda mættu alltaf á alla leiki hérna heima.

 

Hver var eftirminnilegasti leikurinn sem þú lékst fyrir Ísland?

Það var leikurinn í Evrópukeppni sem spilaður var í Bosníu. Þetta var rétt eftir stríðið þar. Átakanlegt að vera á þessu svæði. Þar sem borgin var nánast öll í rúst. Uppselt var á leikinn og stemmningin svakaleg.

 

Hver var sá besti leikmaður sem þú spilaðir með fyrir landsliðið og afhverju?

Náði aðeins að spila einn leik með Pétri Guðmundssyni, en það var nóg til þess að sjá hversu megnugur hann var. Annars held ég að Teitur standi uppúr hjá mér. Mikill keppnismaður sem gaf sig allan í leikinn.

 

Hversu ánægður varðst þú við það að fylgjast með landsliðinu tryggja sér sæti á sínum fyrstu lokum stórmóts?

Alveg hrikalega ánægður fyrir þeirra hönd, enda nokkrir í hópnum búnir að vera í þessu í fjölda ára og svo kannski aðeins meiri gleði hjá mér útaf stráknum.

 

Afhverju heldur þú að það hafi loksins tekist fyrir liðið að tryggja sér seðilinn á lokamót?

Held það sé aðallega útaf því að við erum núna með leikmenn sem eru lykilmenn í sínum liðum í deildum útí heimi. Reynslan, að spila á stóra sviðinu er kannski ekki eins   ógnvekjandi og þetta var hérna á árum áður þegar nánast allir leikmennirnir voru að spila hérna heima. 

 

Hvernig heldur þú að Íslandi eigi eftir að vegna í þessum sterka riðli sem þeir í drógust?

Þetta verður mjög erfitt enda talað um að þetta sé sterkasti riðill í sögu EM. Þeir fara bara óhræddir í alla leiki og munu sýna að þeir eru ekkert komnir þangað til að vera bara með.

 

Ef þú fengir að senda einn fyrrum leikmann Íslands með liðinu á Evrópumótið, hver væri það þá og hvernig myndi hann hjálpa liðinu?

Pétur Guðmundsson, engin spurning. Maður með þessa hæð og getu sem hann hafði, væri ómetanleg.

 

Hvert telur þú vera, fengir þú að velja lið allra tíma, byrjunarliðs uppstilling íslenska landsliðsins?

Margir sem koma til greina en held að þetta yrði svona hjá mér
      Bakverðir Jón Arnór Stefánsson og Páll Kolbeinsson
      Framherjar: Hlynur Bærings og Teitur Örlygsson
      Miðherji: Pétur Guðmundsson

 

Heldur þú, að þú sjálfur sem leikmaður, upp á þitt besta, værir á leið með íslenska liðinu til Berlín næsta vor?

Hahaha það held ég, já. Enda alltaf hægt að nota tveggja metra mann sem gat spilað stöðu 2 til 4 á vellinum.

 

Hver væri þín helsta samkeppni og myndir þú taka hann/þá?

Það væri Haukur Helgi og ég myndi bara feika einhver meiðsl svo að hann fengi að fara fyrir mig í staðinn. Hann ætti það skilið, búinn að standa sig vel.

 

Hvaða ungi leikmaður, sem ekki hefur spilað áður fyrir landsliðið, myndir þú veðja á að ætti eftir að spila yfir 50 landsleiki í framtíðinni?

Það er svo mikið af efnilegum strákum að koma upp, en ef ég ætti að nefna einhvern. Þá myndi ég giska á Kára Jónson úr Haukum.

 

Hverja telur þú tvo mikilvægustu leikmenn íslenska liðsins í dag og afhverju? 

Það eru þeir Jón Arnór og Hlynur Bærings. Þetta eru þeir sem eru með leiðtogahlutverkin á vellinum. Jón er sá sem er okkar aðal ógn í sóknini og Hlynur er sá sem bindur vörnina saman. 

 

Á að bregða landi undir fót og fylgja liðinu til Berlín næsta vor?

Já, auðvitað maður. Við hjónin erum kominn með miða á alla leiki Íslands, búinn að kaupa okkur nýju landsliðtreyjuna og hlökkum mikið til. Áfram Ísland!

 

 

Fyrri viðmælendur:Pétur GuðmundssonGuðjón SkúlasonGuðmundur Bragason