Íslenska landsliðið spilaði síðasta æfingaleik sinn fyrir Eurobasket í dag gegn Belgíu á æfingamóti í Póllandi. Belgiska liðið reyndist of sterkt og gekk Íslandi mjög illa að finna leið framhjá sterkum varnarleik Belga.  Belgarnir unnu leikinn 86-46 og skoraði Íslenska liðið aldrei fleiri en 15 stig í einum leikhluta.  

 

Stigahæstur í liði Íslands var Hlynur Bæringsson með 12 stig og 5 fráköst en næstur á blað var Jakob Sigurðarson með 9 stig og Helgi Már Magnússon og Haukur Pálsson settu báðir 6 stig.  

 

Pavel Ermolinskij tók þátt í leiknum en þetta var hans fyrsti leikur á æfingamótinu í Póllandi sem verður að teljast góðar fréttir fyrir Íslenska liðið með stórmót handan við hornið.  

 

Martin Hermannson, Axel Kárason og Logi Gunnarson fengu allir 5 villur í leiknum en lið Belgana hefur augljóslega reynst þeim mjög erfitt viðureignar á báðum endum vallarins.  

 

Við trúum því að fall sé fararheill og þetta tap mun vonandi reynast okkar mönnum dýrmæt reynsla fyrir komandi átök í Berlín.