Mikið hefur verið og er að fara gerast hjá landsliði okkar íslendinga þetta árið. Fyrst voru það Smáþjóðaleikarnir, sem voru hér heima í byrjun júní. Þar sem að liðið náði öðru sæti. Næst er það hinsvegar lokamót Eurobasket í Berlín nú í september. Við það tilefni fannst okkur kjörið að hafa uppi á nokkrum fyrrum landsliðsmönnum Íslands og fá að spyrja þá að nokkrum spurningum.

 

Að þessu sinni er það Valsarinn Tómas Holton, sem spilaði eina 55 landsleiki fyrir Íslands hönd frá árinu 1985 til ársins 1992.

 

Nafn: Tómas Albert Holton

 

Ferill:1982-2000

 

Félagslið / tímabil: 1982-89 Valur, 1989-90 Budapesti Honvéd (Ungverjaland), 1990-91 TFSE (Ungverjaland), 1991-92 Valur, 1993-95 Ammerud (Noregur), 1994-2000 Skallagrímur.

 

Landsliðsferill: 1985-1994

 

Hvernig var tilfinningin að vera valinn í landslið fyrst?

Ég man að það var mjög spennandi að fara á fyrstu æfingarnar.

 

Hvernig var fyrsti leikur þinn fyrir Ísland?

Kom stuttlega inná í stóru tapi gegn Finnum. 

 

Var móðir þín viðstödd viðureignina?

Þetta var á NM í Finnlandi og hún kom ekki með frekar en aðrar mömmur.

 

Hver var eftirminnilegasti leikurinn sem þú lékst fyrir Ísland?

Sigur gegn Litháen í Höllinni ´92. Stjörnurnar þeirra voru að vísu ekki með, en það var samt skemmtilegur sigur. Risatap gegn Króatíu í undankeppni Ólympíuleikanna 1992 gleymist líka seint. Sennilega eitt af bestu landsliðum sögunnar.

 

Hver var sá besti leikmaður sem þú spilaðir með fyrir landsliðið og afhverju?

Minnisstæðasta frammistaðan er sennilega hjá félaga mínum úr Val Magnúsi Matthíassyni í umræddri undankeppni á Spáni 1992. Við vorum í svakalegum riðli og Maggi plataði marga NBA leikmenn hvað eftir annað upp úr skónum og sendi nokkra útaf með 5 villur.

 

Hversu ánægður varðst þú við það að fylgjast með landsliðinu tryggja sér sæti á sínu fyrstu lokum stórmóts?

 Það var frábært. Ótrúleg stemming í lokaleiknum gegn Bosníu.

 

Afhverju heldur þú að það hafi loksins tekist fyrir liðið að tryggja sér seðilinn á lokamót?

Mér finnst KKÍ hafa haldið vel utan um liðið síðustu ár. Ráðning Craig Pedersen og Peter Öqvist á undan honum skiptu máli. Liðið var búið að spila marga leiki gegn stórþjóðum undanfarin ár og öðlast af því mikla reynslu. Aðalmálið er þó að við höfum aldrei haft svona sterkan leikmannahóp sem myndaði góða liðsheild og hafði hugrekki til að fara alla leið.

 

Hvernig heldur þú að Íslandi eigi eftir að vegna í þessum sterka riðli sem þeir í drógust?

Þetta gæti orðið mjög erfitt, en vonandi náum við að gera einhverja leiki spennandi.

 

Ef þú fengir að senda einn fyrrum leikmann Íslands með liðinu á Evrópumótið, hver væri það þá og hvernig myndi hann hjálpa liðinu?

Alexander Ermolinskij myndi smellpassa inní liðið og setja nokkra þrista eftir pick-and-roll með Pavel. Hann gæti auk þess spilað 1á1 vörn gegn hvaða stórum manni sem er í mótinu.

 

Hvert telur þú vera, fengir þú að velja lið allra tíma, byrjunarliðs uppstilling íslenska landsliðsins?

Jón Sigurðsson, Jón Arnór Stefánsson, Teitur Örlygsson, Hlynur Bæringsson og Pétur Guðmundsson.

 

Heldur þú, að þú sjálfur sem leikmaður, upp á þitt besta, værir á leið með íslenska liðinu til Berlín næsta haust?

Nei því miður.

 

Hver væri þín helsta samkeppni og myndir þú taka hann/þá?

 Allir þessir góðu bakverðir. Þeir eru einfaldlega betri en ég var og myndu skilja mig eftir heima.

 

Hvaða ungi leikmaður, sem ekki hefur spilað áður fyrir landsliðið, myndir þú veðja á að ætti eftir að spila yfir 50 landsleiki í framtíðinni?

Tómas Heiðar Tómasson (mini-me).

 

Hverja telur þú tvo mikilvægustu leikmenn íslenska liðsins í dag og af hverju? 

Jón Arnór er einfaldlega besti leikmaður liðsins og Hlynur er mjög mikilvægur í baráttunni sem er framundan inní teig.

 

Á að bregða landi undir fót og fylgja liðinu til Berlín næsta vor?

Já öll fjölskyldan fer út nema Bryndís (4 ára) sem verður önnum kafin í leikskólanum.

 

 

Fyrri viðmælendur:Pétur GuðmundssonGuðjón SkúlasonGuðmundur Bragason

                      Hermann Hauksson