Í dag eru 7 dagar þangað til EuroBasket hrekkur í gang. Ísland leikur í B-riðli sem fram fer í Berlín í Þýskalandi. Okkar menn eru nú staddir á æfingamóti í Póllandi en í gær urðum við að fella okkur við 80-65 ósigur gegn heimamönnum þar sem Pavel Ermolinskij var hvíldur.  Andstæðingar dagsins eru liðsmenn Líbanon sem fengu skell gegn Belgum í gær, 53-88. Viðureign Íslans og Líbanons hefst kl. 15:30 að íslenskum tíma.

Í dag ætlum við hinsvegar að ná stuðningsmannahliðinni af stað en þegar er kominn í gang hópur á Facebook sem heitir „Ísland á EuroBasket“ – þar á bæ og einn af stofnendum er Loftur Þór Einarsson, margfaldur heimsmeistari í körfuknattleik! Þið kannski þekkið betur til hans sem leikmanns Breiðabliks hér í eina tíð. 

Hvernig upplifðir þú undankeppnina hjá íslenska liðinu, tókstu ákvörðun um að fara á EuroBasket bara um leið og flautan gall eftir Bosníuleikinn?

Já, nánast, við æskufélagarnir reynum að fara í svona strákaferð á tveggja til þriggja ára fresti. Við ætluðum að fara annahvort til Berlínar eða Barcelona svo þegar það varð ljóst að Ísland væri að fara á lokamótið, þá var stefnan tekin á Þýskaland. Alveg frábært líka að hún sé í Berlín, þangað sem okkur langaði að fara.

Með hverjum ertu að fara og hvernig er planið hjá ykkur í Berlín?

Fyrst vorum við 7 æskufélagar úr Kópavoginum að fara. Leigðum okkur flotta íbúð í gegnum Airbnb og keyptum miðana á leikina á netinu og bókuðum flugið sjálfir. Síðan hefur hópurinn verið að stækka, félagar úr Kópavoginum, „gamlir“ Blikar bætast í hópinn, þetta er verða allsherjar „reunion.“ Held við séum orðnir 15, allir sem hafa á einhverjum tímapunkti spilað saman í Breiðablik.

(Neue Heimhat)

Segðu okkur aðeins frá „Íslendingastaðnum“ sem þú ert búinn að vera að kynna á FB-hópnum?

Neue Heimat er gömul lestarstöð sem var breytt í skemmtistað, og þetta er miklu meira en bar. Þarna eru t.d markaðir á sunnudögum, listaviðburðir og tónleikar. Þetta er mjög hrár staður. Mjög vel staðsettur útfrá keppnishöllinni og getur tekið við fleiri hundruð manns. Þarna verður byrjað snemma á laugardeginum fyrir opnunarleikinn. Þarna verður hægt að kaupa sér mat, fullt af svona street food vögnum, Hamborgarbúlla Tómasar verður t.d á staðnum. Og eitthvað gott að drekka með því.

Ég held að við Íslendingar séum soldið stíf á þessum landsleikjum, þannig að ekki veitir af að fá sér smá „gleði“-vökva til að koma raddböndunum af stað. Við verðum að mynda stemningu á pöllunum og yfirgnæfa áhangendur hinna liðanna. Við verðum alltaf litla liðið á þessu móti. En við getum samt alveg látið taka eftir okkur. Mæta öll í bláu og höfum gaman að þessu.

Hvert telur þú vera, fengir þú að velja lið allra tíma, byrjunarliðs uppstilling íslenska landsliðsins?

Ég myndi velja Baldur Ólafsson, Nonna Mæju, bræðurna Magna Hafsteins og Hermann Marinó og mig sjálfan. Við búum yfir gríðarmikilli reynslu, enda þrefaldir heimsmeistarar í körfuknattleik slökkviliðs- og lögreglumanna. Í liðinu væru líka Palli Kristins, Kjartan Kárason og Gummi Mæjuson. Við vitum hvað það er að spila á stóra sviðinu. Svo veit ég að við myndum skemmta okkur vel saman.

Hvernig leggst keppnin í þig, hvað sérðu gerast í þessum leikjum?

Þetta eru hrikalega erfið lið, en við eigum alveg að stríða þessum stóru þjóðum. Koma með íslensku baráttuna.

Á landsleikjum hérna heima finnst mér aldrei vera nein læti. Við erum svo lítið samfélag, þetta eru yfirleitt leikmenn eða fyrrum leikmenn sem hafa eldað grátt silfur inná vellinum og eru að reyna halda einhverju kúli uppí stúku. Nú er kominn tími til að styðja við bakið á strákunum okkar! Þetta er svona þúsundum sinnum meira afrek en öll handboltalandsliðin okkar hafa gert, því körfubolti er svo miklu stærri íþrótt!

Umfram allt að hafa gaman að þessu.

Eins og Jackie Moon sagði:
„ELE! Everybody love everybody!“

Hlakka til að sjá ykkur í Berlín! Áfram ísland

Efri mynd/ Loftur og félagar, heimsmeistarar í körfuknattleik lögreglu- og slökkviliðsmanna en þarna á myndinni eru engar smá kanónur á borð við Baldur Ólafsson, Loft, Magna Hafsteins, Palla Kristins og Nonna Mæju.

Neðri mynd/ Neu Heimhat, annað heimili Lofts og félaga á meðan EuroBasket stendur.