Í dag 4. ágúst eru 32 dagar þangað til Ísland hefur leik í lokakeppni EuroBasket. Þetta er í fyrsta sinn sem við Íslendingar tökum þátt og leikum við í B-riðli sem fram fer í Berlín í Þýskalandi. Með Íslandi í riðlinum eru risaþjóðir í körfubolta, margfaldir heims- og Evrópumeistarar Spánar, Tyrkland, Serbía, Ítalía og svo heimamenn í Þýskalandi.

Landsliðið undirbýr sig nú af krafti fyrir átökin í Berlín og eru Hollendingar væntanlegir til landsins í tvo vináttuleiki dagana 7. og 9. ágúst næstkomandi. Tryggið ykkur miða hér.

Karfan.is hefur sett upp sérstakt svæði hér á síðunni þar sem öllum fréttum tengdum EuroBasket 2015 verður komið fyrir.

Búist er við fjölda íslenskra stuðningsmanna á pöllunum í Berlín og þegar er kominn í gang hópur á Facebook sem heitir „Ísland á Eurobasket 2015“ en þar inni er fólk að leggja á ráðin fyrir fjörið í Berlín. Berlínarfróðir eru sérstaklega hvattir til að bæta sér í hópinn og ausa úr viskubrunni sínum. 

Mynd/ 32 dagar þangað til Ísland tekur í fyrsta sinn þátt í lokakeppni EuroBasket. Martin Hermannsson er spenntur.