Í dag eru 28 dagar þangað til EuroBasket verður gangsett og þessi dægrin eru Hollendingar í heimsókn hér á Íslandi. Löndin mættust í sínum fyrri vináttulandsleik í Þorlákshöfn í gær þar sem um stórsigur Íslands var að ræða. Þéttofinn varnarleikur var Hollendingum um megn og fékk liðið góðan stuðning í Icelandic Glacial Höllinni.

Hollendingar hafa enn ekki fundið sigur í undirbúningi sínum fyrir EuroBasket en þeir verða þar í C-riðli ásamt Grikklandi, Króatíu, Slóveníu, Makedóníu og Georgíu. Í viku nr. 1 af „Power rankings“ hjá FIBA Europe voru Hollendingar settir í 23. sæti af 24 liðum og Ísland fékk 24. sæti. Það gæti mögulega breyst nokkuð miðað við úrslit leiksins í gær. Fólk skal þó búast við Hollendingum sterkari í Laugardalshöll á morgun og auðvitað á að fjölmenna á pallana og kveðja liðið með stæl. Leikurinn á morgun er síðasti landsleikur Íslands hér heima áður en haldið verður út í æfingaleiki og þaðan á stóra sviðið í Berlín. 

Þá er spurning hvort Þorlákshöfn verði ekki gerður að þjóðarleikvangi okkar Íslendinga. Tölfræðin er okkur þar ansi hliðholl en í Icelandic Glacial Höllinni hafa farið fram tveir landsleikir, sá fyrsti gegn Austurríki árið 1991 sem vannst með 32 stiga mun og annar leikurinn í gær sem vannst með 25 stiga mun. Þorlákshöfn er því 57 stig í plús í sögulegu samhengi og skyldi engan undra enda gríðarlegur körfuboltaáhugi á Suðurlandinu. 

Mynd/ 29 dagar í EuroBasket – Brynjar Þór Björnsson sökkti freygátu Hollendinga endanlega í gær með þremur langdrægum.