Í dag eru 26 dagar þangað til EuroBasket hefst. Ísland leikur í B-riðli eins og áður hefur komið fram með Spáni, Tyrklandi, Serbíu, Ítalíu og Þýskalandi. Áður en til Berlínar verður komið er íslenska liðið á leið sinni á tvö æfingamót á næstunni.

Tveimur vináttulandsleikjum hérlendis gegn Hollendingum er lokið þar sem liðin tóku sinn hvorn sigurinn en sigur Hollendinga í gær var jafnframt þeirra fyrsti sigur í undirbúningi sínum fyrir EuroBasket. Þann 19. ágúst næstkomandi heldur íslenska landsliðið til Eistlands og verður þar á fjögurra liða æfingamóti ásamt heimamönnum, Hollendingum og Filippseyjum. 

Dagskráin er þétt því strákarnir okkar halda til Eistlands þann 19. ágúst og koma aftur heim þann 23. ágúst. Liðið verður svo hér heima í fjóra daga og heldur aftur út 27. ágúst á æfingamóti í Póllandi þar sem leikið verður gegn heimamönnum, Belgum og Líbanon. Eftir mótið í Póllandi heldur landsliðið til Berlínar og verður komið þangað þann 31. ágúst og leikur fyrsta leik sinn gegn heimamönnum í Þýskalandi í opnunarviðureign B-riðils þann 5. september. 

Það er því nóg við að vera næstu dagana hjá íslenska liðinu. 

Við minnum einnig á að þeir sem hafa þegar tryggt sér miða til Berlínar geta komið sér fyrir í Facebook-hóp sem heitir „Ísland á Eurobasket 2015“

Mynd/ Pavel Ermolinskij