Niðurtalningin í EuroBasket 2015 heldur áfram og í dag eru 25 dagar þangað til Ísland og Þýskaland mætast í opnunarleik B-riðils í Berlín.

Ísland hefur einu sinni áður leikið í Þýskalandi, það var í maí 1975 þegar einn riðill undankeppni EM var leikinn í Wolfenbuettel. Ísland var í riðli með Póllandi, Svíþjóð, Grikklandi, Albaníu og Lúxemborg. Þetta var í annað skiptið sem Ísland tók þátt í undankeppni EM og var á brattann að sækja.

Fyrsti leikurinn gegn Pólverjum tapaðist með 52 stigum, annar gegn Svíum með 50 og þá kom tap gegn Grikkjum með 30 og svo Albönum með 35. Í lokaleiknum vann svo Ísland Lúxemborg með 6 stigum.

Í sigurleiknum gegn Lúxemborg skiptust stig leikmanna þannig: Kristinn Jörundsson 23, Agnar Friðriksson 14, Bjarni Gunnar Sveinsson 13, Símon Ólafsson 7, Kristinn Stefánsson 6, Kári Marísson 5, Gunnar Þorvarðarson 2, Þórir Magnússon 2 og Jóhannes Magnússon 1.

Eftir mótið sýndi þýska liðið Wolfenbuettel Kristni Jörundssyni áhuga og hefði það mál gengið alla leið hefði Kristinn orðið fyrsti atvinnumaður Íslands í körfubolta.

Mynd/ Hlynur Bæringsson