Í dag eru 24 dagar þangað til EuroBasket hefst. B-riðill Íslands fer fram í Berlín og þar verður opnunarleikurinn gegn heimamönnum þann 5. september næstkomandi kl. 15:00 að staðartíma. Við ætlum að kíkja aðeins á þýska liðið.

Eins og flestum er kunnugt hefur það þegar verið gefið út að goðsögnin Dirk Nowitzki verður með Þjóðverjum á mótinu. Þessi 37 ára gamli jaxl hefur verið á mála hjá Dallas Mavericks í NBA deildinni frá árinu 1998. Heilir 213 sentimetrar og hyldjúpt vopnabúr á sóknarendanum. Árið 2002 var hann valinn besti leikmaður heimsmeistaramótsins og besti leikmaður Evrópumeistaramótsins 2005. Í tvígang hefur hann verið leikmaður ársins hjá FIBA Europe. Árið 2011 varð Nowitzki meistari með Dallas og var þá einnig valinn besti leikmaður úrslitanna. 

Dennis Schröder er 21 árs gamall leikstjórnandi og mun ekki síður mikið á honum mæða í liði Þýskalands. Schröder var valinn sautjándi í nýliðavalinu 2013 af Atlanta Hawks. 

Hér má sjá leikmannalista Þjóðverja í undirbúningi sínum fyrir EuroBasket

Bandaríkjamaðurinn Chris Fleming þjálfar Þjóðverja en hann stýrði þýska U20 ára landsliðinu í A-deild árið 2005 og var við stjórnartaumana hjá þýska liðinu Brose Baskets þegar liðið m.a. tók þátt í EuroChallenge keppninni árið 2010. Fleming er í dag aðstoðarþjálfari hjá Denver Nuggets í NBA deildinni en það er hans fyrsta starf sem þjálfari við deildina. 

Þjóðverjar hafa einu sinni orðið Evrópumeistarar en það var árið 1993 og árið 2005 hafnaði liðið í 2. sæti eftir 78-62 ósigur gegn Grikkjum í úrslitaleik mótsins. Dirk Nowitzki leiddi það mót með 26,1 stig að meðaltali í leik og var næst frákastahæstur með 10,6 fráköst að meðaltali í leik. 

Mynd/ Ragnar Á. Nathanaelsson