Í dag eru 23 dagar þangað til EuroBasket hefst. B-riðill Íslands fer fram í Berlín og annar leikur okkar Íslendinga á mótinu er gegn Ítalíu þann 6. september kl. 18:00 að staðartíma. Við ætlum að kíkja aðeins á ítalska liðið.

Í annarri viku styrkleikalista FibaEurope fyrir EuroBasket fellur Ítalía niður um tvö sæti en Ítalir voru í 10. sæti listans fyrstu vikuna en eru nú í því tólfta. Á styrkleikalistanum var sú skýring gefin að liðið hafi ekki spilað neinn undirbúningsleik síðustu vikuna og því ekki annað hægt en að skvetta þeim niður um tvö pláss á meðan önnur lið hafi verið að standa sig vel.

Ítalir hafa tvisvar sinnum orðið Evrópumeistarar. Fyrst árið 1983 og aftur árið 1999 með 56-64 sigri gegn Spánverjum í úrslitaleik mótsins. 

Þekktustu leikmenn Ítala eru einna helst þeir Andrea Bargnani, miðherji, og Danilo Gallinari framherji. Andrea Bargnani er leikmaður Brooklyn Nets í NBA deildinni en hann var valinn fyrstur í nýliðavali deildarinnar árið 2006 af Toronto Raptors. Síðan þá hefur hann einnig verið á mála hjá New York Knicks en Bargnani var í Toronto 2006-2013. Bargnani er 213 sm. á hæð og um 111 kg. Árið 2006 var hann valinn besti leikmaður á Ítalíu U22 ára og það sama ár var hann einnig valinn Euroleague rising star. Bargnani var svo valinn í NBA All-Rookie First Team eftir sitt fyrsta ár í NBA deildinni. 

Danilo Gallinari er leikmaður Denver Nuggets í NBA deildinni, 205 sm og 102 kg. Gallinari átti flott tímabil með Denver í NBA á síðustu leiktíð með 12,4 stig að meðaltali í leik. Kappinn var valinn sjötti í nýliðavali deildarinnar árið 2008 af New York Knicks. Áður en hann kom í NBA deildina var hann valinn besti leikmaður ítölsku deildarinnar þar sem hann spilaði með Olimpia Milano en þessi 27 ára gamli framherji fór frá New York árið 2011 og hefur síðan verið hjá Denver. 

Ítalir eiga þriðja manninn í NBA deildinni en það er Marco Belinelli leikmaður Sacramento Kings. Belinelli er 196 sm og 88 kg skotbakvörður/framherji. Belinelli var valinn átjándi í fyrstu umferð nýliðavalsins 2007 og fór þá til Golden State Warriors. Hann hefur einnig verið á mála hjá Toronto, New Orleans, Chicago og San Antonio Spurs áður en hann lenti í faðmi Sacramento Kings. 2014 varð Belinelli NBA meistari með Spurs. 

Simone Pianigiani er þjálfari Ítala en þessi 46 ára gamli kappi hefur m.a. þjálfað Montepaschi Siena og Fenerbache Ulker og tók við ítalska landsliðinu árið 2009. Piangiani lét af störfum hjá Fenerbache í Tyrklandi af persónulegum ástæðum í febrúar 2013 en skildi við liðið á toppi deildarinnar. 

Finnur Freyr Stefánsson annar tveggja aðstoðarþjálfara íslenska liðsins sá Ítali spila á dögunum á Trentino Cup sem var liður í undirbúningi þeirra fyrir EuroBasket. Þar lá Ítalía í úrslitaleik mótsins gegn Þjóðverjum en Ítalir léku án Gallinari, Belinelli og Bargnani á mótinu. 

Þá er gaman að geta þess að viðureign Íslands og Ítalíu í Berlín verður sú fyrsta í sögunni millum þjóðanna. 

6. september 2015
Ísland – Ítalía kl. 18:00 að staðartíma í Berlín. 

Mynd/ Logi Gunnarsson