Í dag eru 22 dagar þangað til EuroBasket hefst. B-riðill Íslands fer fram í Berlín í Þýskalandi og þriðji leikur okkar Íslendinga á mótinu er gegn Serbum. Leikurinn hefst kl. 14:30 að staðartíma. Við ætlum að kíkja aðeins á serbneska liðið.

Ísland og Serbía eiga að baki tvo landsleiki. Serbar unnu báða leikina í riðlakeppninni fyrir EM 2013. Fyrri leikurinn fór fram þann 14. ágúst í Laugardalshöll þar sem Serbar fóru með 78-91 sigur af hólmi en þann 30. ágúst það sama ár fengu strákarnir okkar skell í Nis í Serbíu. Heimamenn unnu þann leik 114-58 eða með 56 stiga mun. 

Einn besti leikmanna Serba í dag er leikstjórnandinn Milos Teodosic. Leikstjórnandi upp á 195 sm. og 87 kg. Hinn 28 ára gamli Teodosic er leikmaður CSKA Moskvu í Rússlandi en hefur verið á mála hjá Olympiacos. Árið 2010 var hann valinn besti leikmaður Euroleague og hið sama ár var hann valinn FIBA Europe Player of the Year. 

Stefan Markovic gætu sumir þekkt en enginn þekkir hann þó betur en Jón Arnór Stefánsson. Þeir voru liðsfélagar á síðustu leiktíð hjá Unicaja Malaga í ACB deildinni á Spáni. Markovic er 27 ára gamall leikstjórnandi/skotbakvörður og stendur í 199 sm. og um 98 kg. Áður en hann kom til Malaga lék hann með Banvit, Valencia og Benetton Treviso. 

Þá er röðin komin að helstu vonarstjörnu þeirra Serba en sá heitir Bogdan Bogdanovic og er 22 ára gamall leikmaður Fenerbache í Tyrklandi. Bogdanovic er skotbakvörður/leikstjórnandi, 198 sm. og 91 kg. Phoenix Suns völdu hann nr. 27 í nýliðavalinu 2014 en hann er þó áfram í herbúðum Fenerbache. Síðustu tvö ár (2014 og 2015) hefur Bogdanovic verið valinn Euroleague Rising Star. Þá var hann valinn besti leikmaður úrslitanna er hann varð meistari með Partizan í Serbíu 2014. 

Bogdanovic á ferðinni í Euroleague á síðasta tímabili

Aleksandar Djordjevic er þjálfari Serba en þessi 47 ára gamli kappi tók við Serbum 2013 en hann er einnig aðalþjálfari Panathinaikos í Grikklandi. Sem leikmaður var hann m.a. á mála hjá Real Madrid, Barcelona og Portland Trail Blazers um skamma stund en lauk leikmannaferli sínum 2005 hjá Olimpia Milano. Árið 1997 var hann valinn besti leikmaður EuroBasket. 

Serbar fóru úr 2. sæti í það þriðja í síðasta Power Rankings hjá FIBA Europe og skýra fræðingar FIBA Europe það út með ósigri þeirra gegn Frökkum í æfingaleik. Frakkar fóru þar með upp í 2. sætið. 

Mynd/ Þjálfarar Íslands frá vinstri Craig Pedersen þjálfari, Arnar Guðjónsson aðstoðarþjálfari og Finnur Freyr Stefánsson aðstoðarþjálfari.