Í dag er 21 dagur þangað til EuroBasket hefst. B-riðill Íslands fer fram í Berlín í Þýskalandi og fjórði leikur okkar Íslendinga á mótinu verður gegn Spánverjum kl. 21:00 að staðartíma. Við ætlum að kíkja aðeins á geysiöflugt lið Spánar.

Nokkuð óhætt er að segja að leikmannalistar þjóða verði ekki mikið öflugari nema hjá bandaríska landsliðinu, hjá Spánverjum er heimsklassa leikmaður í hverri stöðu. Við erum að tala um Rudy Fernandez, Pau og Marc Gasol, Serge Ibaka og Sergio Llull. „La Bomba“ eða Juan Carlos Navarro eins og hann var víst skírður verður ekki með Spánverjum á EM en þessi 35 ára gamli jaxl er meiddur og var orðinn tæpur undir lok síðustu leiktíðar með Barcelona í ACB deildinni á Spáni.

Lítum aðeins á bræðurna Pau og Marc Gasol. Pau er sá eldri, 35 ára og í dag leikmaður Chicago Bulls í NBA deildinni sem leikur stöðu kraftframherja/miðherja. Pau er 213 sm. að hæð og 113 kg. Hann lék með Barcelona 1998-2001 áður en hann hélt yfir til hafið og var valinn þriðji í nýliðavalinu 2001 af Atlanta Hawks. Fljótt var hann kominn á mála hjá Memphis Grizzlies og lék þar til 2008 þangað til hann skipti yfir til LA Lakers og var í englaborginni til 2014 er hann skipti yfir í vindaborgina Chicago. Í tvígang hefur hann orðið NBA meistari, fimm sinnum valinn í stjörnuleik NBA og var nýliði ársins 2002. Pau var í landsliði Spánar 2008 og 2012 sem fella mátti sig við silfur á Ólympíuleikunum í Peking og London eftir tap í úrslitum gegn Bandaríkjamönnum.

Marc Gasol er yngri bróðirinn en þó samt stærri bróðirinn í heilum 216 sm. og 120 kg. Rétt eins og eldri bróðir var hann í silfurliðum Spánar á Ólympíuleikunum 2008 og 2012. Einnig rétt eins og Pau þá hefur Marc verið á mála hjá Barcelona en var valinn nr. 48 í annarri umferð nýliðavals NBA árið 2007. LA Lakers völdu Marc en hann hefur alið manninn hjá Memphis Grizzlies síðan 2008. Í tvígang hefur hann verið valinn í Stjörnuleik NBA og var valinn varnarmaður ársins í deildinni 2013. 

Ásamt þeim bræðrum ætlum við líka að kíkja á Rudy Fernandez leikmann Real Madrid. 30 ára skotbakvörður/lítill framherji, 196 sm. að hæð og 84 kg. Fernandez var valinn af Phoenix Suns í nýliðavalinu 2007 en er þó þekktari fyrir frammistöðu sína hjá Real Madrid síðustu ár. Árið 2006 var hann valinn FIBA Young Player of the Year og var einnig liðsmaður hjá Spáni í silfurverðlunum Ólympíuleikanna 2008 og 2012. 

Þjálfari Spánar er Sergio Scariolo. 54 ára Ítali sem nýverið tók við landsliðinu en tímabilið 2013-2014 þjálfaði hann Laboral Kutxa í ACB deildinni á Spáni. Scariolo var valinn þjálfari ársins á Ítalíu 1994. Hann hefur þjálfað EA7 Milano, var með spænska landsliðið 2009-2012, Unicaja Malaga 2003-2008 og þar á undan eða 1999-2002 þjálfaði hann Real Madrid í ACB deildinni. 

Frá árinu 2001 hefur Spánn aldrei endað neðar en 3. sæti á EuroBasket. Árið 2013 höfnuðu Spánverjar í 3. sæti, 2011 og 2009 varð liðið Evrópumeistari og 2007 hafnaði liðið í 2. sæti. Eins og gefur að skilja þykja Spánverjar líklegastir sem sigurvegarar í B-riðlinum í Berlin, byrjum þar áður en við gefum þeim Evrópumeistaratitilinn. 

Viðureign Íslands og Spánar í Berlín þann 9. september verður fyrsti landsleikurinn í sögunni millum þjóðanna.