Í dag eru 18 dagar þangað til EuroBasket hefst. Ísland leikur í B-riðli sem fram fer í Berlín í Þýskalandi. Í dag ætlum við að rölta niður minningastræti en þar sjáum við magnaðan árangur Sovíetmanna á EuroBasket.

Fyrsta Evrópumót landsliða í körfubolta karla, EuroBasket, fór fram í Sviss árið 1935 og voru það Lettar sem fóru með sigur af hólmi eftir 24-18 sigur á Spánverjum.

Í þessu fyrsta móti tóku 10 þjóðir þátt en í mótinu sem fer fram í september verða 24 þjóðir og er það þriðja mótið sem sá fjöldi tekur þátt.

Mótið í sumar er 39. mótið og eru það Sovétmenn sem oftast hafa orðið meistarar eða 14 sinnum, næstir koma Júgóslavar með 8 gull og eru Litháar í þriðja sæti með 3 gull. Spánverjar, Ítalir og Grikkir hafa tvisvar unnið en Tékkóslóvakía, Frakkland, Rússland, Ungverjaland, Lettland, Þýskaland og Afríkuþjóðin Egyptaland hafa öll orðið Evrópumeistara einu sinni. Egyptar urðu meistarar 1949 þegar mótið var haldið í Egyptalandi.

Auk Egyptalands hafa 21 þjóð haldið mótið, þ.á.m. frændur okkar Svíar og Finnar. Mótið í sumar er fyrsta mótið sem er leikið í meira en einu landi.

Frakkar eru sú þjóð sem oftast hefur tekið þátt en þeir hafa aðeins misst af tveimur mótum 1969 og 1975 en Ítalir hafa aðeins misst af þremur mótum, 1949, 1961 og 2009.

Þá er athyglisvert að skoða árangur Sovétmanna, þeir tóku þátt í 21 móti og fengu alltaf verðlaun, 14 gull, 3 silfur og 4 brons.