Í dag eru 17 dagar þangað til EuroBasket hefst. Ísland leikur í B-riðli sem fram fer í Berlín í Þýskalandi. Í morgun hélt íslenska landsliðið áleiðis til Eistlands á æfingamót þar sem leikið verður gegn heimamönnum, Hollandi og Filippseyjum. Í dag ætlum við þó að halda á ný niður minningastræti og kanna smá kreðsu en hér í eina tíð var umhverfi hávaxinna leikmanna annað en það er í dag.

Í gegnum tíðina hafa margar hetjur verið valdar besti leikmaður Evrópumótsins (MVP), síðast var það Frakkinn Tony Parker. Aðeins einn leikmaður hefur verið valinn tvisvar en það var Júgóslavinn Kresimir Cosic árin 1971 og 1975.

Árið 1939 var Litháinn Mykolas Ruzgys valinn bestur en að allra áliti var annar Lithái, Pranas Lubinas besti leikmaðurinn. Pranas þessi var fæddur í Bandaríkjunum af litháískum foreldrum og er þekktari undir ameríska nafni sínu, Frank John Lubin. Lubin lék með bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikunum 1936 og vann til gullverðlauna með þeim. Eftir það var hann kallaður til Litháen og var fyrsti landsliðsþjálfari Litháa, stýrði þeim til sigurs á EuroBasket 1937 og 1939. 

Það var einmitt á 1939 mótinu sem allir töldu hann bestan en hann fékk ekki nafnbótina þar sem reglur FIBA bönnuðu að leikmaður yfir 190 cm fengi þessi verðlaun en Lubin var 198 cm. Þessar sömu reglur bönnuðu reyndar einnig leikmönnum yfir 190 cm að leika í mótinu en þeim var breytt daginn fyrir mótið.

Frank Lubin hefur verið kallaður afi litháísks körfubolta.