Í dag eru 14 dagar þangað til EuroBasket hefst en Ísland leikur í B-riðli sem fram fer í Berlín í Þýskalandi. Strákarnir okkar eru nú staddir í Eistlandi á Toyota Four Nations Cup mótinu þar sem liðið tapaði fyrsta leik gegn Eistum en vann svo sigur á Hollendingum í gær. Í dag er leikið gegn Filippseyjum.

Í dag ætlum við að hlaupa aðeins yfir stöðuna á leikmannalistum þjóðanna í B-riðli en Spánverjar voru fyrstir liða til að tilkynna 12 manna hópinn af þeim liðum sem skipa B-riðil. 

12 manna hópur Spánar 
Pablo Aguilar
Victor Claver
Rudy Fernandez
Pau Gasol
Guillermo Hernangomez
Sergio Llull
Nikola Mirotic
Felipe Reyes
Pau Ribas
Sergio Rodriguez
Fernando San Emeterio
Guillem Vives

Þó þarna vanti sleggjur á borð við Juan Carloz Navarro, Marc Gasol, Serge Ibaka og Ricky Rubio þá dylst engum það að hópur þeirra Spánverja er feykilega sterkur. 

Ísland er enn að vinna með 15 manna hóp. Alls fjórtán fóru til Eistlands og var það hlutur Sigurðar Þorvaldssonar að hinkra heima á meðan Eistlandsferðinni stóð. Eins og þegar hefur komið frá Körfuknattleikssambandinu þá er Sigurður enn í hópnum og mun æfa með liðinu þegar það kemur aftur til landsins. Þá hefur enn ekki verið gefið út hvenær endanlega 12 manna val fyrir átökin í Berlín muni eiga sér stað. 

Tyrkir hafa ekki skorið neitt niður eins og sakir standa og enn að vinna með 23 manna hóp. Serbar aftur á móti hafa sneitt niður hópinn sinn í 14 manns. Sasha Djordjevic þjálfari Serba lét á dögunum framherjann Luka Mitrovic úr hópnum sem og litla framherjann Marko Keselji. 

Hið sama gengur fyrir Ítali og Þjóðverja en þeir eru rétt eins og Tyrkir líka að vinna með stóra hópa í augnablikinu. Ítalir unnu á dögunum Tblisi Cup á móti með Georgíu, Eistlandi og Lettlandi. Þjóðverjar eru enn á stórum hóp og töpuðu á dögunum gegn Króötum en sá leikur fór fram í Bremen. Króatar létu sér ekki nægja að mæta til Þýskalands og vinna Þjóðverja 80-63 heldur gerðu það frammi fyrir 10.000 manns í Bremen! Ljóst að Þjóðverjar fylgja sínum mönnum vel eftir og að dagurinn verðir allsvakalegur þegar opnunarviðureign Þýskalands og Íslands hefst í Berlín 5. september!