Í dag eru 12 dagar þangað til EuroBasket hefst og leikur Ísland í B-riðli sem fram fer í Berlín í Þýskalandi. Íslenska liðið æfir í dag og á morgun og á miðvikudag verður haldið á annað æfingamót sem fram fer í Póllandi. Áður en íslenska liðið heldur til Póllands mun lokaniðurskurðurinn á leikmannahópnum eiga sér stað og aðeins 12 leikmenn fara til Póllands og þaðan til Berlínar.

Einn okkar þarf ekki að hafa áhyggjur af niðurskurðinum en það er dómarinn Sigmundur Már Herbertsson en hann mun standa í ströngu á EuroBasket þó ekki verði karlinn kallaður til Berlínar eins og gefur að skilja þar sem hann dæmir jú fyrir Íslands hönd. Sigmundur mun dæma í D-riðli sem leikinn verður í Riga í Lettlandi en þar verða Lettar, Eistar, Litháar, Úkraínumenn, Belgar og Tékkar. 

Sigmundur er fyrsti íslenski dómarinn sem dæmir í lokakeppni Evrópumóts A landsliða. Hann hóf að dæma körfubolta 1996 hér á Íslandi eftir að hafa leikið með Njarðvík upp alla yngri flokkana og upp í meistaraflokk. Lék m.a. Evrópuleiki gegn Bayern Leverkusen.

Hann tók FIBA dómaraprófið 2003 og hefur frá því dæmt fjöldan allan af alþjóðaleikjum og nú er hann kominn á stærsta svið sem hann hefur komist á.

Ísland á í dag tvo virka FIBA dómara en ásamt Sigmundi er það Leifur Garðarsson en auk þess er Aðalsteinn Hjartarson FIBA dómari fyrir Sviss.

Mynd/ Bára Dröfn: Frá vinstri Aðalsteinn Hjartarson, Sigmundur Már Herbertsson og Leifur Garðarsson en þeir félagar dæmdu saman á Smáþjóðaleikunum sem fram fóru í Laugardalshöll fyrr á þessu ári.