Skallagrímsmenn hafa tryggt sér starfskrafta JR Cadot fyrir komandi tímabil í 1. deildinni. Cadot sem er 28 ára gamall kemur frá Bahamaeyjum en hann leikur stöðu framherja og er 196 cm á hæð. Hann lék með Texas Christian University (TCU) í bandaríska háskólakörfuboltanum en eftir útskrift árið 2012 hefur hann verið í atvinnumennsku og leikið með liðum í Slóvakíu og Nýja Sjálandi. Í Slóvakíu var hann með 17 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar að  meðaltali í leik.

Finnur Jónsson þjálfari meistaraflokks karla segir Cadot vera alhliða leikmann sem getur bæði leikið stöður undir körfunni og utan teigs. Hann er einning öflugur varnarmaður og kemur því til með að styrkja varnarleik Skallagrímsliðsins í vetur. Því séu miklar vonir bundnar með komu Cadot. Hann er væntanlegur í Borgarnesi í byrjun september.