ÍR-ingar eru hundeltir af meiðsladraugnum þessa vertíðina. Undanfarið hefur miðherjinn Vilhjálmur Theodór Jónsson verið fjarverandi í liði ÍR en á fyrri part síðustu leiktíðar var hann einnig frá vegna brjóskloss. Eitthvað er að þokast til í málum Vilhjálms og von til þess að hann geti snúið aftur á parketið með ÍR eftir um það bil þrjár vikur eða svo.
 
 
„Staðan er þannig að á fyrri part síðustu leiktíð er ég frá vegna brjóskloss í baki. Næ mér eftir það. Svo fer ég að fá bakverki aftur núna um jólin og fer í myndartöku, þar kemur í ljós að einhver breyting hefur orðið, sem við í fyrstu héldum að væri mjög alvarleg, en kom svo í ljos í morgun að væri ekki eins alvarleg og við héldum. Ákveðin óvissa í gangi núna, en möguleiki að ég verði farinn að spila aftur eftir 3 vikur,“ sagði Vilhjálmur áðan í samtali við Karfan.is.
 
ÍR-ingar mega ekki mikið við fleiri skakkaföllum í botnbaráttu deildarinnar og síður en svo úr ranni miðherja sinna. Vilhjálmur hefur leikið 11 leiki með ÍR á tímabilinu með 8,6 stig og 6,0 fráköst að meðaltali í leik.