Í dag var dregið í undanúrslit í Poweradbebikarkeppni karla og kvenna. Karfan.is tók púlsinn á hlutaðeigandi aðilum. 
 
Finnur Freyr (KR): (KR-Tindastóll, karlar)
„Já við erum ánægðir með að fá heimaleik. Þegar þetta langt er komið i keppnina eru allir leikir erfiðir og því vel þegið að fá að spila á heimavelli. Tindastóll eru með hörkulið og vel þjálfaðir og verður gaman að fá að takast á við þá.”
 
Friðrik Ingi (NJA): (Grindavík-Njarðvík, konur)
„Okkur líst bara ágætlega á leikinn, erum ánægð með góðan sigur á KR í 8-liða úrslitum. Það er mikil uppbygging í kvennastarfinu innan félagsins, mikil aukning á iðkendum og svona úrslit eins og gegn KR eykur bara áhugann og drifkraftinn. Við erum ekki að fara framúr okkur, erum meðvituð um að liðið er býsna ungt enda er horft til næstu ára. Stefnan er að styrkja undirstöðurnar þannig að þegar liðið kemst á ný á meðal þeirra bestu sé liðið komið til að vera þar um aldir og ævi eins og sagt er. Þetta er þolinmæðisvinna og allir að horfa í sömu átt. Það er metnaður í starfinu og leikmenn kappsamir að verða betri.”
 
Pálína (GRI): (Grindavík-Njarðvík, konur)
„Að spila í undanúrslitum í bikar er ótrúlega gaman, allt i kringum þessa leiki eins og stemningin er ólýsanleg. Undir er ferð í Höllina; sem er einhver mesta skemmtun sem leikmenn upplifa á sínum ferli. Við hlökkum til að mæta grönnum okkar í Njarðvík, þær hafa sýnt það að þær eru með hörkulið og á þetta eftir að verða hörkuleikur.”
 
Israel Martin (TIN): (KR-Tindastóll, karlar)
„Allir bikarleikir eru úrslitaleikir. Ef þú vinnur, ertu áfram í keppninni. Ef þú tapar, ferðu heim. Þetta verður áhugaverður leikur, en við erum að einbeita okkur núna að heimaleiknum okkar gegn þeim (KR) í Dominosdeildinni. Það búast auðvitað allir við sigri þeirra, þannig að pressan er öll þeirra megin.”
 
Sara Rún (Kef): (Keflavík-Snæfell,konur)
„Við Keflavíkurstelpur erum ótrúlega spenntar að fá Snæfell í heimsókn í Toyotahöllina. Snæfell er með mjög gott lið þannig að þetta er stórt og skemmtilegt verkefni. Þetta eru tvö efstu lið deildarinnar sem ég hafði ímyndað mér að sjá í úrslitum en ég veit að þetta verði mjög spennandi og skemmtilegur leikur. Þetta verður svona leikur þar sem dagsformið skiptir máli, hvort liðið vilji þetta meira. Ég lofa mikilli baráttu frá Keflavíkurstelpum og býst ég við því sama frá Snæfelli. Við í Keflavík vitum hvernig það er að fara í Höllina og spila úrslitaleiki, því ætlum við okkur að komast núna í ár, því þetta er einn skemmtilegasti dagur á tímabilinu.”
 
Ingi Þór (Snæ): (Keflavík-Snæfell,konur)
„Þetta er klárlega mesta áskorunin fyrir okkur, en þetta eru undanúrslit og það langar öllum að fara í Höllina. Það er okkar markmið og við munum vinna hart að því að ná því”
 
Pavel (KR): (KR-Tindastóll, karlar)
„Fyrst og fremst frábært að fá heimaleik og þegar þetta er komið í undanúrslit þá ertu að fara að fá erfiðan andstæðing. Það mikilvægasta var að fá heimaleik.”
 
Hildur Sig (Snæ): (Keflavík-Snæfell,konur)
„Þetta verður hörku leikur hjá toppliðum deildarinnar. Það er ekkert auðvelt að fara til Keflavíkur í svona leik en okkur Snæfellsstúlkum hefur liðið ágætlega á parketinu í Keflavík og munum koma vel gíraðar í þennan leik.”