Þórsarar voru fyrstir til að leggja Grindavík á þessu ári þegar liðin mættust í Glacialhöllinni í kvöld 97-88 í ansi kaflaskiptum leik. Jafnræði var á með liðunum í byrjun leiks. Bæði lið voru frekar mistæk sóknarlega en flottur varnarleikur hjá báðum liðum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 14-16 gestunum í vil.
 
 
Bæði lið settu meiri kraft í sóknina í 2. leikhluta. Liðin skiptust á að hafa forystu þegar þarna er komið við sögu. Um miðjan annan leikhluta náðu gestirnir 10-2 áhlaupi og héldu forystu sinni fram að hálfleik. Staðan 38-45 er leikmenn gengu til búningsherbergja.
 
Benni hefur greinilega tekið hárþurrkuna á menn í hálfleik því heimamenn komu brjálaðir til leiks í seinni hálfleik. Þeir gjörsamlega lokuðu vörninni og gestirnir fundu enga leið að körfunni. Emil Karel og Tómas Heiðar voru frábærir á þessum kafla í leiknum. Þórsarar með 16 stiga viðsnúning í leikhlutanum og staðan eftir þrjár lotur var 66-57 heimamönnum í vil.
Mikið fjör var allan fjórða leikhluta og bæði lið buðu upp á hágæða sóknarleik. Jón Axel var frábær fyrir gestina og bar sóknarleik þeirra á herðum sér megnið af seinni hálfleik. Gestirnir skildu Tómas og Emil oft eftir mjög opna fyrir uta þriggja stiga línuna og það var ekki skynsamlegt.
 
Tómas Heiðar var að skjóta mjög vel í leiknum og hvorki lækkaði þriggjastiga né víta nýtingin hjá honum í þessum leik. Hann setti niður bæði vítin sín og 5/7 fyrir utan þriggja stiga línuna. Hann er með bestu nýtinguna í deildinni í báðum þessum flokkum. Lokatölur í Þorlákshöfn í kvöld, 97-88.
 
Hjá heimamönnum voru atkvæðamestir Darren Govens var með 24 stig 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Tómas Heiðar 21/1/3. Emil Karel 17 stig og 5 fráköst. Sovic 16/4. Grétar Ingi 10 stig, 10 fráköst, 2 varin og 3 stolna ásamt því að spila fína vörn á Rodney Alexander. Oddur Ólafs var með 7 stig og 2 fráköst. Baldur 2 stig og 4 stoðsendingar. Aðrir komust ekki á blað.
Hjá gestunum voru atkvæðamestir Jón Axel með 23 stig 3 fráköst og 2 stoðsendingar. Rodney 19 stig og 17 fráköst. Jóhann Árni með 17 stig. Ómar Sævars með 10 stig og 9 fráköst. Oddur Rúnar 6 stig. Hinrik með 5 stig. Óli Óla 4 stig og 8 fráköst. Þorsteinn og Daníel skorðuð svo sitt hvor 2 stigin.
 
Dómarar leiksins voru engir nýliðar í faginu með samtals 70 – 80 ára reynslu í farteskinu og komust mjög vel frá sínu í kvöld en þarna voru að störfum þeir Leifur S. Garðarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Kristinn Óskarsson.
 
 
Mynd/ Davíð
Umfjöllun/ HH