Reykjavíkurrimma kvöldsins lofaði góðu þegar slagur Vals og KR hófst í Domino´s deild kvenna. Jafnt var á öllum tölum í fyrri hálfleik en í þeim síðari tóku Guðbjörg Sverrisdóttir og Taleya Mayberry ráðin í sínar hendur og stýrðu Valskonum í átt að tveimur öruggum stigum, lokatölur 82-58 Val í vil í Vodafonehöllinni.
 
 
Helsti ferskleiki fyrsta leikhluta kom með Kristrúnu Sigurjónsdóttur af bekk Valskvenna en hún stimplaði fljótt niður sex stigum og Valur leiddi 16-14. Annar leikhluti var öllu líflegri þar sem Björg Guðrún var að finna sig vel hjá KR. Simone Holmes kom röndóttum svo í 26-33 með þrist og gestirnir leiddu 34-40 í hálfleik. Flottur annar leikhluti hjá KR-ingum og Björg Guðrún komin með 14 stig í hálfleik en Mayberry með 9 hjá Val og enn að ná áttum í Domino´s deildinni í sínum fyrsta leik.
 
Mun frískara Valslið mætti inn í síðari hálfleikinn og fyrstu sjö mínúturnar kom 15-6 kafli og staðan svo 56-50 fyrir Val að leikhlutanum loknum. KR hengdi haus! Fanney Lind Guðmundsdóttir lokaði svo þriðja leikhluta með þrist fyrir Val og heimakonur opnuðu þann fjórða einnig með þrist og komust í 59-50 og litu ekki til baka eftir það.
 
Fjórði og síðasti leikhluti fór 26-8 fyrir Val þar sem þær Guðbjörg Sverrisdóttir og Mayberry tættu í sig vörn KR-inga. Afleitar og að öllum líkindum dýrkeyptar 20 mínútur hjá Vesturbæingum sem misstu Val 10 stig fram úr sér í deildinni sem rennir enn sterkari stoðum undir að fimm efstu liðin muni ein koma til með að berjast um sæti í úrslitakeppninni. Þó eru eins og gefur að skilja enn 26 stig eftir í pottinum svo það er engin ástæða til að örvænta en nú fer hver að verða síðastur til að lemja sig nær sæti í úrslitakeppninni.
 
Eftir brösugan fyrri hálfleik komst Mayberry að endingu mjög vel frá sínum fyrsta leik með Val þar sem hún gerði 28 stig, tók 6 fráköst, gaf 8 stoðsendingar og stal 3 boltum. Guðbjörg Sverrisdóttir bætti við 22 stigum og 9 fráköstum. Hjá KR var Björg Guðrún Einarsdóttir með 17 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst. Simone Holmes vantaði að langstærstum hluta vilja í verkefnið en hún lauk leik með 15 stig sem og Bergþóra Tómasdóttir.
 
Eldskírn Harðar Unnsteinssonar sem þjálfara í úrvalsdeild var því stórt tap en hann tók við KR af Finni Jónssyni. Karfan TV ræddi við Hörð eftir leik og verður hægt að nálgast viðtalið á eftir.
 
 
Mynd/ Jón Björn – Munurinn á Val og KR í síðari hálfleik í kvöld kristallast hér í andliti landsliðskonunnar Kristrúnar Sigurjónsdóttur.