Breiðablik tóku á móti Val í kvöld í Smáranum. Breiðablik voru fyrir leikinn í kvöld að vonast eftir sínum fyrsta heimasigri í úrvalsdeildinni en verða að bíða örlítið lengur eftir honum þar sem Valsstúlkur fóru illa með þær grænklæddu í kvöld. Valur skoruðu fyrstu stig leiksins og létu forystuna ekki af hendi það sem eftir lifði leiks og sigruðu örugglega 67-85. Breiðablik átti góðan annan leikhluta en komust ekki nær Valsstúlkum en 6 stigum. Taleya Mayberry átti afleitan sóknarleik í kvöld og setti hún aðeins niður eitt skot. Það kom þó ekki að sök fyrir Valsstúlkur þar sem aðrar stigu upp og voru þær með fimm leikmenn sem skoruðu 10 stig eða meira og var Guðbjörg Sverrisdóttir grátlega nálægt þrefaldri tvennu en hana vantaði aðeins eina stoðsendingu seinustu þrjár mínútur leiksins til að landa henni.
 
Gestirnir hófu leik á 6-0 kafla áður en Blikar svöruðu með tveimur körfum í röð. Valur áttu síðan yfirhöndina næstu mínúturnar þar sem þær yfirspiluðu þær grænu 9-2. Eftir það jöfnuðust leikar aðeins en Valsstúlkur enduðu svo leikhlutann á 4-0 og leiddu því nokkuð afgerandi 11-23 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Fanney Lind Guðmundsdóttir og Ragna Margrét Brynjarsdóttir fóru mikinn með 7 og 8 stig.
 
Breiðablik byrjuðu annan leikhlutan sterkt og yfirspiluðu Val 8-1 fyrstu fjórar mínúturnar. Þá vöknuðu þær rauðklæddu aðeins til lífsins og skoruðu nokkrar körfur á móts við Breiðablik. En þá kom kafli þar sem báðum liðum gekk illa að koma knettinum ofan í körfuna. Breiðablik gerðu vel og unnu leikhlutann með 6 stigum, 17-11, og staðan því 28-34 í hálfleik.
 
Þriðji leikhluti byrjaði með mikum hamagangi þar sem voru skoruð 16 stig á fyrstu þremur mínútunum, Valskonur einni körfu betri. Leikhlutinn var annars frekar jafn þangað til Fanney Lind smellti niður þrist fyrir þær rauðu sem var fylgt eftir með tveimur vítaskotum frá Guðbjörgu Sverrisdóttur. Staðan 41-52 með rétt rúmar tvær mínútur eftir af þriðja. Liðin 
skiptust hins vegar á körfum til loka leikhlutans og staðan 48-59 Val í vil fyrir loka átökin.
 
Sara Diljá Sigurðardóttir og Sóllilja Bjarnadóttir sáu til þess að Valur byrjaði leikhlutann 5-0 og varð það til þess að Andri Þór Kristinsson sá ekki annað á borði en að taka leikhlé enda hans lið komið 16 stigum undir. Breiðablik sá varla til sólar og héldu Valsstúlkur áfram að bæta í og voru þær komnar 22 stigum yfir með rétt tæpar fimm mínútur til leiksloka. Með úrslitin klár þá var aðeins hægt að fylgjast spennt/ur með því hvort Guðbjörgu tækist að ná þrefaldri tvennu en hún kom inná í fyrsta skipti í leikhlutanum með rétt tæpar 5 mínútur til leiksloka og vantaði hana aðeins 2 stig og 2 stoðsendingar til að ná henni. Það tók hana aðeins 17 sekúndur til að gefa stoðsendingu og mínútu og 17 sekúndum síðar smellti hún niður þrist til að koma sér í 12 stig. 10 stoðsendingin leit á sér sjá og þrátt fyrir nokkrar tilraunir seinustu þrjár mínúturnar gekk það ekki eftir. Vert er að taka það fram að Guðbjörg gerði sér engan vegin grein fyrir því að hana vantaði aðeins eina stoðsendingu í þrennuna og var hún því ekki að þröngva neinu í eltingarleik við hana.
 
 
 
Mynd/ Sóllilja Bjarnadóttir átti góðan leik í kvöld og skoraði 12 stig