Það var sérdeilis rafmagnað andrúmsloftið í DHL höllinni í kvöld þegar bláhvíta Breiðhyltinga bar að garði, vígreifa mjög og vongóða. Svarthvítir og sigurvissir buðu Vesturbæingar vini sína úr póstnúmeri 109 velkomna til sætis…hægra megin í horninu þar sem hægt var að láta fara þokkalega vel um sig og fylgjast með væntri yfirkeyrslu í boði heimamanna. Ef litið er á töfluna eina og sér og þá staðreynd að KR er heitasta körfuboltaliðið í gjörvallri Skandinavíu, taplausir með öllu…þá er yfirkeyrsla og upprúll eitthvað sem margur hefði búist við. Eeeeen þeir sem hafa fylgst með ÍR í vetur vita að það er mun meira spunnið í þetta lið heldur en staða þeirra á töflunni gefur til kynna.
 
 
Já það er rétt að ÍR hafði aðeins unnið 2 leiki í vetur og KR alla sína 12. Hins vegar hafa ÍR-ingar verið að tapa þessum leikjum afar naumt og töpuðu t.d. fyrir KR með 6 stigum á heimavelli sínum fyrr í vetur. Þetta haft í huga sem og að eini leikurinn sem að KR tapaði í fyrra var fyrsti heimaleikurinn eftir jól líkt og þessi, þá var von á jöfnum og spennandi leik í baráttunni um borgina..sem og varð raunin.
 
KR byrjaði með nautsterkt byrjunarlið (Brynjar, Crayon; Helgi, Finnur, Pavel) og ÍR með lipurt lið og léttleikandi (Tray, Matti, Ragnar, Sveinbjörn, Kristján).
 
Báðum liðum gekk brösuglega að koma boltanum ofan í körfuna til að byrja með og mönnum mislagðar hendur. ÍR-ingar brutu þó ísinn en KR skoraði ekki sín fyrstu stig fyrr en 2:30 voru liðnar af leiktímanum. ÍR-ingar virtust ákveðnir mjög í öllum sínum aðgerðum og voru að hitta vel. KR drengir voru á sama máta værukærir og vantaði alla stemningu í mannskapinn. Strákarnir úr Breiðholtinu gengu á lagið og komust fljótlega í 11 stiga forskot 19-8 eftir 5 mínútna leik. Þristunum rigndi á þessum tímapunkti hjá ÍR-ingumþar sem Kristján Pétur Andrésar stórpípara úr Stykkishólmi fór fyrir sínum mönnum með tvo þrista á skömmum tíma og ÍR með sex þrista total. Hins vegar var nýtingin afleit hjá KR-ingum hvert sem litið var á vellinum og ekki síst á vítalínunni sem er sjaldgæf sjón í Vesturbænum. Ekki má taka það af ÍR að þeir spiluðu fantavörn, voru grimmir og hleyptu engum í röndóttri peysu upp að körfunni óáreittum. Áfram héldu ÍR-ingar að bæta í og leiddu þeir leikhlutann með 13 stigum eða 15:28. Pavel og Finnur með 6 stig hvor en Kristján stigahæstur ÍR-inga með 8 stig.
 
KR byrjaði svo 2.leikhluta með tilfinnanlegu lífsmarki og sýndu smá neista, en ÍR var ekki á því að láta neitt af hendi og börðust fyrir hverjum bolta. Trey Hampton var KR-ingum sérlega erfiður ljár í þúfu og virtist skora af vild á meðan berserkurinn M.Craion var aðeins skugginn af sjálfum sér og munar um minna. ÍR vinnur leikhlutann 27:24 og eru yfir í hálfleik 39:55.
 
3.leikhlutinn byrjaði ekki vel fyrir KR þar sem títtnefndur Trey blokkar Craion allt að því út úr húsinu og setja svo ÍR-ingar þrist beint í andlitið á þeim svarthvítu og útlitið dökkt í DHL. ÍR-ingar 19 stigum yfir 41:60 og jarðarfararstemning og vonleysi yfir KR stúkunni. Þá var líkt og KR-maskínan vaknaði af værum blundi því nú var smellt í hina sæmilegustu svæðisvörn sem gekk upp og áhlaup upp á 11-0. Baddi Magg þjálfari Breiðhyltinga sá sinn kost vænstan að taka þarna leikhlé og ráða ráðum sínum. Ekki gerði leikhléið mikið fyrir ÍR-inga. KR-ingar voru komnir á bragðið, með blóð á tennur og var nú komið að þeim að láta rigna þristum yfir ÍR-inga sem voru sjálfir ískaldir þessa stundina líkt og loppnir sjóhundar. 19 stiga forskot gestanna hvarf á 7 mínútna kafla þar sem heimamenn fóru á 27:4 “rönn” en náðu samt ekki að komast yfir. KR jafnaði 62:62 og svo aftur 65:65 en þar var að verki hinni ungi og efnilegi Þórir Þorbjarnarson að verki fyrir heimamenn með tvo stóra þrista. ÍR steig þá aftur á bensínið og nær að seiglast í 67:72. Þar átti Kristján Pétur undraverðan þrist spjaldið ofan í, sem hann gleymdi að kalla og hefði því ekki átt að teljast samkvæmt óskrifuðum reglum..en það er annað mál.
 
4.leikhlutinn var jafn ótrúlega spennandi og hann var skemmtilegur á að horfa. ÍR setti fyrstu tvær körfurnar og eru skyndilega komnir með 10 stiga forskot en KR hélt sínu góða tempói og minnka alltaf bilið, en merkilegt nok þegar KR voru við það að narta í hæla ÍR-inga þá virtust þeir síðarnefndu alltaf geta gefið aðeins í og siglt frá þeim aftur. Það verður að segjast að ÍR hafi verið í ansi góðri stöðu með 9 stiga forskot þegar 2 mínútur voru eftir og allt útlit fyrir það að KR væri að tapa sínum fyrsta leik, en það er ástæða fyrir því að þetta lið er ósigrað. Reynsluboltinn Helgi Már Magnússon setti tvo þrista í röð og svo var það maðurinn sem sem elskar stóru skotin, Brynjar Þór Björnsson a.k.a. Brilli sem að hlóð í einn svakalegann, góða 2 metra fyrir utan þriggja, sem auðvitað fór beint ofan í. ÍR-ingar höfðu svo einhverjar 20 sekúndur til þess að klára leikinn og nýttu það afar illa og því var framlenging staðreynd.
 
Framlengingin var verulega spennandi þar sem liðin skiptust á að skora. KR fékk hins vegar lokasóknina í stöðunni 99:99 þar sem Brilli fékk það hlutverk að klára leikinn en ekki gekk það hjá honum það sinnið og því þurfti að framlengja aftur.
 
Seinni framlengingin var einnig “thriller” líkt og sú fyrri en vitað var að nú yrði þetta erfiðara fyrir gestina þar sem Trey, Dock og Ragnar voru allir komnir með 5 villur. KR-ingar keyrðu á laskaða ÍR-inga sem með gríðarlegri seiglu náðu oftar en ekki að svara fyrir sig. Michael Craion var ákaflega sterkur á þessum tímapunkti þótt hann virtist ekki ganga heill til skógar að undirrituðum sýndist, reif niður fráköst og skoraði grimmt. Að endingu þurftu baráttuglaðir ÍR-ingar að játa sig sigraða gegn reynslumiklu liði Íslandsmeistaranna. Lokatölur 113:110 og eiga KR-ingar borgina enn um sinn. Frábær leikur þar sem áhorfendur fengu miklu meira en helling fyrir peninginn.
Hjá KR var Pavel bestur með enn eina þreföldu tvennuna 24-18-14…rosalegar tölur hjá drengnum. Hjá ÍR var Matthías Orri gríðarlega öflugur og var hann eins nálægt því að vera með þrefalda tvennu eins og hægt er 29-12-9. Ekki var hinn síungi Sveinbjörn Claessen síðri með „solid“ 26 stig.
 
 
Texti: Þorbjörn Geir Ólafsson