Lítið um að vera í deildinni þessa dagana og því ekki úr vegi að líta aðeins á stöðuna áður en 15. umferðin hefst á fimmtudaginn.
 
KR er langskilvirkasta liðið í Dominosdeild karla. Ekkert lið kemur nálægt þeim í sóknarskilvirkni en Tindastóll er hins vegar fast á hælum þeirra í vörn.  Varnarleikur Tindastóls er löngu orðinn alræmdur og þá sérstaklega í Síkinu fyrir norðan. Þar halda þeir andstæðingum sínum í 77,7 stigum að meðaltali í leik. KR var þar engin undantekning og náði að skora aðeins 78 stig í leiknum þar í síðustu viku — það lægsta sem KR-ingar hafa skorað í vetur.
 
Athygli vekur að KR og Tindastóll eru orðin þau lið sem spila hvað hraðastan bolta, bæði með Pace í eða yfir 89.  Aðeins Þór Þorlákshöfn er nálægt þeim gildum.
 
Stjarnan er skilvirkara sóknarlið en Tindastóll en varnarleikur þeirra dregur þá niður í þriðja sætið í heildina. Sóknarnýting andstæðinga Stjörnunnar er 49% en það er lakara en tvö næstu lið fyrir neðan.
 
Njarðvík hefur sótt á undanfarið og er fantagott varnarlið — það þriðja besta í deildinni. Sóknarleikurinn er hins vegar ekki upp á marga fiska. Sóknarnýtingin er 47,7% — rétt aðeins hærri en nýting andstæðinga þeirra. Helsta vandamálið hjá þeim er skotnýtingin og hlutfall sóknarfrákasta, en það er næstlægst í deildinni.
 
Eitthvað er að glæðast undir Grindvíkingum, eftir skelfilega byrjun á tímabilinu. Athygli vekur að Grindavík er annað skilvirkasta sóknarlið deildarinnar, en mikil óskilvirkni í varnarleik þeirra dregur þá niður fyrir miðja töflu. Þveröfugt við Keflavík sem er með fínan varnarleik en sóknin er sú alla daprasta í deildinni. Lakari en öll botnliðin, en varnarleikurinn heldur þeim uppi í 9. sæti.
 
ÍR dettur niður í 10. sæti þrátt fyrir að liggja á botninum í raunverulegri stöðu deildarinnar.  Aðalsökudólgurinn þar er varnarleikurinn sem hefur slaknað frá því um jólin. Hann er þó betri en hjá tveimur liðum fyrir ofan ÍR-inga. Sóknarleikurinn hins vegar stendur í stað hjá ÍR-ingum.
 
 
Í Four Factors greingingu eru teknir saman fjórir þættir sem taldir eru hafa hvað mest áhrif á leik liða í sókn og vörn, en þeir eru virk skotnýting (eFG%), hlutfall tapaðra bolta (TOV%), hlutfall sóknarfrákasta (ORB%) og að lokum hlutfall skoraðra víta á móti skottilraunum utan að velli (FT/FGA). Í sókn eru þetta gildi fyrir liðið sjálft en í vörn eru þetta gildi fyrir andstæðinga liðanna. Hægra meginn við hvern þátt kemur fram í hvaða sæti liðið lendir meðal hinna liðanna í hverjum þætti.
 
Á myndinni hér að ofan má sjá vegið meðaltal þessa fjögurra þátta í sókn (S) og vörn (V), þ.e. vegið meðaltal á sætaskipan liðanna í hverjum þætti. Skotnýtingin (eFG%) fær mesta vigt eða 40%, tapaðir boltar (TOV%) 25%, sóknarfráköstin (ORB%) 20% og að lokum hlutfall víta og skottilrauna (FT/FGA) 15%. Jafnt meðaltal þessara tveggja vegnu meðaltala sýnir svo “Alls” dálkinn. Lægstu gildin í S, V og Alls dálkunum sýna bestu liðin í sókn, vörn og í heildina. ORgt er Offensive Rating og táknar skoruð stig per 100 sóknir og DRgt er Defensive Rating og táknar skoruð stig andstæðinga per 100 sóknir. Pace er meðaltal sókna liðs og andstæðings í leik og táknar leikhraðann sem liðin spila á. OffFloor% og DefFloor% meta skilvirkni sókna og varna. Floor% sýnir hlutfall sókna þar sem skorað er a.m.k. eitt stig á móti öllum sóknum. Hlutfall sem sýnir nýtingu liða á þeim sóknum sem spilaðar eru. Hátt gildi í OffFloor% er jákvætt en lágt gildi í DefFloor% er jákvætt.  Liðunum á þessari mynd og myndinni að ofan er raðað upp eftir gildum í “Alls” dálkinum.