Stærsti leikur vetrarins verður leikinn í kvöld á Sauðárkróki. Það er ekkert flóknara. Þetta er leikurinn sem mun veita okkur forsmekkinn af því sem koma skal í úrslitakeppninni í vor. Tindastóll tekur á móti taplausum KR-ingum í Síkinu í kvöld kl. 19:15.
 
Tindastóll er ekki taplaus eins og KR-ingar en það sem gerir þennan leik svo ómótstæðilega áhugaverðan er að hann fer fram í hinu alræmda Síki — heimavelli Tindastóls sem erfiðasti útivöllur deildarinnar samkvæmt tölfræðisamanburði — auk þess sem fyrri leikur liðana í DHL höllinni var fyrsti leikur KR þar sem vélin sýndist vera að hiksta.
 
Til upphitunar fyrir leikinn í kvöld skulum við kíkja á tölfræði þessara liða og þá sundurliðað eftir útileikjum KR og heimaleikjum Tindastóls. Bæði lið hafa sigrað alla þessa leiki. Það er því ljóst að annað hvort KR tapar fyrsta leik sínum í vetur og þá einnig fyrsta útileik eða að Tindastóll tapar sínum fyrsta heimaleik.
 
 
Tindastóll er sterkara frákastalið en það er líklegt að stálin munu mætast stinn í fráköstunum þar sem þetta getur orðið afgerandi þáttur í leiknum. KR-ingar tapa að meðaltali 12,8 boltum í leik en þeir eiga það hins vegar til að tapa mun fleiri eins og sést hefur fyrr í vetur. Gestir í Síkinu hins vegar tapa að meðaltali 20,3 boltum í leik. Það þýðir að um 120 boltar hafi tapast hjá aðkomuliði í Síkinu í vetur!
 
Veikleiki Tindastóls er einna helst þriggja stiga skotin því liðið skýtur ekki vel þaðan ólíkt andstæðingum þeirra. KR hefur yfirhöndina þarna því KR-ingar hafa nýtt 40% skota sinna utan þriggja stiga línunnar.
 
Takið hins vegar eftir tölum Tindastóls í varnarleiknum. Atli Fannar var ekki að ýkja þegar hann sagði að aðalstyrkleiki Tindastóls væri vörnin. Tindastóll heldur andstæðingum sínum í 0,898 stigum per sókn og sóknarnýtingu í 39,9%. Það þýðir að gestirnir í Síkinu þurfa að meðaltali tæplega þrjár sóknir til að skora eitt stig. KR-ingar eru heldur engir aukvisar í vörn en tölurnar þeirra eru heldur eðlilegri en það sem gestgjafar þeirra í kvöld hafa upp á að bjóða.
 
Fylgist með frá fyrstu mínútu því þessi lið spretta af stað strax í fyrsta leikhluta þar sem þau skora bæði yfir 26 stig að meðaltali, eins og sjá má á stigaskori liðanna eftir fjórðungum.