Samkvæmt heimildum ESPN hafa Denver Nuggets sent miðherjann Timofey Mozgov til Cleveland Cavaliers fyrir tvo valrétti í fyrstu umferð næsta nýliðavals sem Cavs fengu í fyrri skiptum. 
 
Annar valrétturinn er frá Oklahoma City Thunder og er tryggður í top 18 fyrir næsta nýliðaval og top 15 fyrir næstu ár á eftir. Hinn er frá Memphis Grizzlies og er tryggður í 6-14 í þessu og næsta nýliðavali en topp 5 næstu tvö ár eftir það.
 
Nuggets eru ólíklegir í úrslitakeppnina og því farnir að huga að sparnaði fyrir næsta ár og uppbyggingu í framtíðinni. Þeir losa pening af bókunum en Mozgov var með $4,6m í laun. Cavs munu svo hafa rétt á að halda honum fyrir $4,95m á næsta ári. Nuggets fá einnig launaþaksundanþágu sem samsvarar launum Mozgovs í ár frá Cavs.
 
Mozgov á gott samband við David Blatt, þjálfara Cavs en Blatt þjálfaði landslið Rússlands sem Mozgov spilaði með á Ólympíuleikunum í London 2012, þar sem Rússar unnu brons.
 
Mozgov er með 8,5 stig og 7,8 fráköst í leik en það sem Cavs sárvantar frá honum er vörn en hann er með betri varnarmiðherjum deildarinnar. Mótherjar Nuggets skoruðu 44,2 stig í teignum á meðan hann er inni á vellinum sem er 23. besta meðal leikmanna í deildinni. Skotnýting þeirra í teignum á meðan hann er inn á er 56,1% sem er það 27. besta meðal leikmanna í deildinni. Mozgov ver einnig 4,1 skot í leik sem er það 26. besta meðal leikmanna deildarinnar.