Það gekk ekki áfallalaust fyrir Snæfell að komast til leiks í Dalhúsum í kvöld. Klukkutíma fyrir leik, keyrandi um Kjalarnes uppgötvaði Hermundur Pálsson, bílstjóri Snæfellinga að eitt hjólið undir bíl þeirra væri eitthvað laust. Í ljós kom hins vegar að allar rærnar af öðru aftara hjólinu undir bílnum voru horfnar og það í raun laflaust á öxlinum.
 
Upp hófst leit að rónnum sem leiddi til þess að tvær þeirra fundust. Hermundur ákvað að það skyldi duga, sótti tvær aðrar af hinu afturdekkinu og skellti með þeim sem fundust á það lausa. 
 
Með fjórar rær á hvoru hjóli skrölti kerran í bæinn og Snæfellingar komust í salinn rétt fyrir leik.
 
Svaðilfarirnar skemmdu ekki mikið fyrir liðinu því Snæfell uppskar nauman sigur í Dalhúsum í háspennuleik.
 
Mynd:  Hermundur Pálsson, bílstjóri Snæfells, kannar stöðuna. (Sigurður Þorvaldsson)