Þór Þorlákshöfn vann í kvöld sinn annan leik í röð í Domino´s deild karla þegar spútniklið Tindastóls mætti í Icelandic Glacial Höllina. Hér fór bráðfjörugur leikur sem var jafn frá upphafi til enda. Grétar ingi setti tóninn hjá heimamönnum en Tómas Heiðar og Sanford komu sterkir inn með seinni skipunum og Emil Karel stóð fyrir sínu allan leikinn. Hjá Tindastól var Darrel Lewis magnaður og Helgi Freyr Margeirsson brúkaði fallbyssuna ótt og títt en það dugði ekki að sinni. Lokatölur 97-95 Þór í vil.
 
Grétar Ingi Erlendsson og Darrel Lewis mættu fyrstir til leiks í Icelandic Glacial Höllinni. Stólarnir í bölvuðu basli með Grétar á blokinni og bakverðir Þórs sömuleiðis í vandræðum með Lewis. Allt fór þetta fjörlega af stað, keyrt vel í gang og mikið skorað, heimamen í Þór leiddu 25-24 eftir fyrsta leikhluta. Emil Karel var einnig líflegur hjá heimamönnum en bæði lið fengu varnarræðuna í leikhléinu fyrir annan leikhluta.
 
Flestir virtust sammála um að herða róðurinn í vörninni, gestirnir úr Skagafirði breyttu þessu í líkamlegri leik og heimamenn kveinkuðu sér. Með Grétar Inga utan vallar tókst Stólunum að síga framúr, Helgi Freyr með tvo sterka þrista fyrir Tindastól. Brussugangurinn var öllu meiri í leiknum en í fyrsta leikhluta og nokkuð stirðara hjá báðum liðum. Tindastóll náði forystunni og hélt henni í hálfleik, 44-48 og hið margrómaða dúnalogn, Darrell Lewis, var kominn með 20 stig og 8 fráköst í liði gestanna. Hjá Þór var Grétar Ingi með 13 stig og 5 fráköst.
 
Heimamenn mættu út í fluggírnum í síðari hálfleik, Emil Karel gerði fimm stig í röð fyrir Þór sem komst í 56-50 og gestirnir tóku leikhlé. Helgi Freyr Margeirsson fór þá aftur að láta á sér kræla í liði gestanna, þrír langdrægir með skömmu millibili og sá síðasti minnkaði muninn í 64-62, Helgi í banastuði og kominn með 18 stig og 6-9 í þristum. Tindastólsmenn náðu að jafna og eftir flottan þriðja leikhluta var staðan 72-72 fyrir lokasprettin.
 
Fjórði leikhluti var æsispennandi, Oddur Ólafsson og Tómas Heiðar skelltu niður tveimur sterkum þristum og Tómas fór mikinn þegar leikurinn var kominn hérna í „járn.“ Lewis reyndi hvað hann gat fyrir sína menn og jafnaði leikinn 91-91 með körfu og villu að auki. Sanford setti svo niður naglbít þegar mínúta lifði leiks og kom Þór í 94-91 en hann var öllu rólegri í kvöld heldur en í leiknum gegn ÍR. Nokkrar líklegar tilraunir gestanna til að komast upp að hlið heimamanna og jafnvel stela sigrinum vildu ekki ganga eftir væntingum gestanna og Þórsarar fögnuðu vel og innilega 97-95 sigri. Hörkusigur hjá Þór og vel haldið á spilunum á lokasprettinum.
 
Með sigrinum í kvöld er Þór komið upp í 5. sæti Domino´s deildarinnar með 14 stig rétt eins og Snæfell, Keflavik, Haukar og Njarðvík en Tindastóll er sem fyrr í 2. sæti með 20 stig.
 
 
Viðtal við Grétar Inga Erlendsson leikmann Þórs eftir leik: