Tindastólsmenn tryggðu sér sæti í undanúrslitum Poweradebikarsins með góðum útisigri á Snæfell 70-83 í dag. Staðan í hálfleik var 30-36 gestunum í vil. Stigahæstur í kvöld var Myron Demspey með 23 stig og 11 fráköst en hjá heimamönnum í Snæfell var Sigurður Ágúst Þorvaldsson stigahæstur með 28 stig.
 
 
Fjölmargir stuðningsmenn Tindastóls gerðu sér ferð í Hólminn og áttu þeir stúkuna. Það má með sanni segja að “leikur án snertingar” eigi það til að breytast þegar Tindastólsmenn mæta til leiks, það varð raunin í dag. Tindastóll spilaði fast og gerðu það vel. Snæfellingar voru tilbúnir í það framan af.
 
Byrjunarlið liðanna voru svona skipuð:
Austin, Svenni, Siggi, Chris og Stefán byrjuðu fyrir Snæfell en þeir Pétur, Viðar, Lewis, Helgi Rafn og Myron fyrir Tindastól.
 
 
Snæfell byrjuðu leikinn betur og voru komnir í 8 – 2 eftir 2 mínútur þá vöknuðu gestirnir og komu sér yfir 10 – 12. Leikurinn í góðu jafnvægi og bæði lið að berjast á fullu. Leikhlutinn endaði 15 – 19 fyrir gestina. Gestirnir fengu að ýta Snæfellingum út úr sínum aðgerðum og skoruðu Hólmararnir ekki í 10 mínútur. Tindastóll var þá einnig að gera illa í sókninni, það má segja að leikurinn hafi verið lítið fyrir augað í þangað til að Chris fékk tvö vítaskot þegar 4 mínútur voru eftir af leikhluta tvö. Snæfell brýtur þá ísinn en þeir voru komnir 12 stigum undir eftir 10 mínútna ísinguna. Snæfell klárar leikhlutann 15 – 7 og af einhverjum ástæðum er aðeins 6 stiga munur í hálfleik. Siggi Þorvalds kominn með 12 stig og Darrel Lewis 10 hjá stólunum.
 
 
Þriðji leikhlutinn var sterkari hjá Tindastólsmönnum og má segja að þeir hafi stigið stórt skref í átt að 4 liða úrslitunum í leikhlutanum. Hólmarar reyndu og reyndu hvað þeir gátu að minnka niður forskotið, en alltaf tókst þeim að klúðra boltanum í hendur stólanna sem fengu auðveldar körfur. Darrel Lewis var frábær í leikhlutanum, en hann setti hvert skotið niður og sýndi fólki hvernig á að nota spjaldið. Staðan eftir þrjá leikhluta 47-61.
 
 
Í upphafi fjórða leikhluta eru Hólmarar með bakið upp við vegg, þeir þurfa að sækja og stoppa. Það byrjar ekki að vel fyrir þá, þeir ná að skora en ekki stoppa. Leikhlutan vinnur Snæfell með einu stigi en það dugar þeim ekki. Snæfell hefur oftar en ekki spilað þó nokkuð betur en þetta. Þeir voru settir út úr sínum aðgerðum og fengu lítið þegar þeir sóttu að körfunni. Tindastóll komnir í 4 liða úrslit og eru til alls líklegir á meðan Snæfellingar þurfa að sætta sig við leiðinlegt tap í hörku leik. Þeim vantaði kannski þor og trú til að vinna leikinn, þeir kasta boltanum alltof oft í hendur andstæðinga sinna og fengu borgað til baka í ódýrum körfum frá Tindastól, lokatölur 70-83.
 
Dómarar leiksins hafa sýnt betri leiki en í dag, mikil harka var leyfð í leiknum sem Tindastólsmenn fundu sig vel í.